Stjórn FIBA fundar á Íslandi

Hannes S. Jónsson, fyrir miðju ásamt Páli Kolbeinssyni og Craig …
Hannes S. Jónsson, fyrir miðju ásamt Páli Kolbeinssyni og Craig Pedersen landsliðsþjálfara. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Stjórnarfundur FIBA Europe (evrópska körfuknattleikssambandsins) verður í Reykjavík um næstu helgi. Er þetta í fyrsta sinn sem stjórn FIBA Europe kemur saman til fundar á Íslandi en fundurinn verður á Grand hóteli.

Stjórnarfundir eru yfirleitt í höfuðstöðvum FIBA Europe í München en að þessu sinni verður fundað á Íslandi. Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og stjórnarmaður í FIBA Europe lýsir yfir mikilli ánægju með að fundurinn sé hér á Íslandi. „Það er ekki oft sem stjórnin fundar utan höfuðstöðvanna og því afar ánægjulegt að ákveðið var að koma til Íslands. Ísland er spennandi áfangastaður og hér er körfuboltinn og aðrar íþróttir á uppleið og hefur það ekki farið framhjá neinum í Evrópu. Þ.a.l. þótti afar viðeigandi að halda stjórnarfund hérna hjá okkur,“ sagði Hannes S. Jónsson.

Ásamt því að halda hefðbundinn stjórnarfund mun stjórnarfólk skoða landið og heimsækja forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson. „Það er okkur mjög mikils virði að forseti geti tekið á móti okkur. Hann er mikill stuðningsmaður íþróttastarfs á Íslandi og svona heimboð sýnir það í verki,“ sagði Hannes og bætti við. „Einnig verður farið að leiði Ólafs Rafnssonar, fyrrverandi formanns KKÍ, ÍSÍ og forseta FIBA Europe. Margt stjórnarfólk var samstarfsfólk Ólafs til margra ára og því skiptir það þau máli að heimsækja landið hans og fá tækifæri til að koma við í kirkjugarðinum þar sem hann hvílir.“

Nokkrir þekktir fyrrverandi leikmenn sitja í stjórn FIBA Europe og er án efa þeirra þekktastir Andrei Kirilenko en hann er forseti rússneska sambandsins og Jorge Garbajosa sem er forseti spænska sambandsins. Ásamt stjórnar- og starfsfólki FIBA Europe kemur til landsins Patrick Baumann framkvæmdastjóri FIBA World og stjórnarmaður í alþjóðlegu Ólympíuhreyfingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert