Ekkert eðlilegt við þetta

Kári Jónsson í leik með Haukum gegn Tindastóli.
Kári Jónsson í leik með Haukum gegn Tindastóli. mbl.is/Hari

Það er ekki auðvelt að henda í pistil þegar maður er orðlaus og þið verðið að fyrirgefa ef ég rugla bara í þessum pistli. Það þarf mikið til að ég verði orðlaus en undrabarninu úr Hafnarfirði tókst það með svakalegustu sigurkörfu sem ég hef nokkurn tímann séð og hef ég séð ýmislegt á langri ævi.

Það er ekkert eðlilegt við það að skora sex stig á rúmum þremur sekúndum. Fyrst þrjú víti til að jafna leik í úrslitakeppni og síðan skora úr eigin vítateig. Ég er farinn að spyrja mig spurninga: úr hverju Kári er gerður. Er hann einhver ofurhetja sem er ekki mannleg nema að hluta til? Hann hefur skorað fleiri sigurkörfur frá eigin vallarhelming í gegnum tíðina en þarna toppaði hann allt saman.

Samningur við djöfulinn?

Venjuleg manneskja myndi líka verða pínu stressuð á vítalínunni með þá pressu að þurfa að hitta úr öllum þremur vítaskotunum til að jafna leikinn. Maður sá á andlitinu á krakkanum að hann væri að fara að hitta þeim öllum. Öll þrjú snertu ekkert nema netið. Gerði hann samning við djöfulinn fyrir einhverju síðan?

Eins sætt og það var fyrir Hauka að vinna með svona ævintýralegum hætti þá er það jafn skelfilegt fyrir Keflavík að tapa svona. Þvílíka tuskan í andlitið eftir að hafa verið með leikinn í hendi sér. Ég hefði örugglega farið að grenja um leið og sigurskotið söng í netinu. Það verður ekki auðvelt fyrir Keflvíkinga að rífa sig upp eftir þetta í leik þrjú. Ég gæti trúað að þeim liði eins og örlögin hafi gripið inn í og þeim ekki ætlað að vinna leik í þessari seríu. Það er heldur ekki sanngjarnt þegar hitt liðið er með ofurhetju sem getur hluti sem enginn annar getur og sem er ekki hægt að stöðva.

Sjá allan pistil Benedikts Guðmundssonar körfuboltasérfræðings Morgunblaðsins í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert