„Þetta var karaktersigur“

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Finnur Freyr Stefánsson var ánægður með 81:71 sigur sinna manna á Njarðvík í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik. KR vann einvígi liðanna 3:0 og er komið í undanúrslit.

„Þetta var karaktersigur. Pavel steig rosalega upp og þegar skotin voru ekki að detta náðum við loksins að sækja aðeins á hringinn í lokin og fá körfur þar,“ sagði Finnur við mbl.is eftir leikinn í KR-heimilinu í kvöld.

„Ég er gríðarlega ánægður með að hafa náð að klára þetta.“

Hann segir að þrátt fyrir að tvisvar sinnum í leiknum hafi komið langur kafli þar KR hitti lítið hafi liðið verið að skapa ágætisfæri. „Mér fannst við oft á tíðum skapa fullt af skotum. Það verður samt að segjast eins og er að það er erfitt að skora í kringum körfuna þegar einn svona risastór stendur þarna,“ sagði Finnur.

Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, er með brotið bein í handarbaki, Jón Arnór Stefánsson haltraði af velli í upphafi seinni hálfleiks og Björn Kristjánsson bar kælipoka að skothendinni að leik loknum. Finnur svaraði því játandi að hvíldin fram undan væri kærkomin en sagðist ekki vita stöðuna á Jóni.

„Við vorum með Bjössa á annarri hendinni í seinni hálfleik og Jón og Brynjar úti. Það er ekkert grín að mæta Njarðvíkurliðinu upp við kaðlana og ná að klára þá. Á tímapunkti fannst mér líkurnar ekki með okkur en menn stigu upp og settu stór skot og við náðum að klára þetta í vörninni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert