„Létum þá fara í hausinn á okkur“

Kári Jónsson sækir að Keflvíkingnum Christian Dion Jones á Ásvöllum …
Kári Jónsson sækir að Keflvíkingnum Christian Dion Jones á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það vantaði svolítið neistann í okkur framan af og svo hungrið til að klára leikinn,“ sagði svekktur Kári Jónsson við mbl.is eftir 81:78-tap Hauka gegn Keflavík í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik.

Kári var hetja Hauka í Keflavík á dögunum þegar hann skoraði ævintýralega sigurkörfu á lokasekúndu leiksins en í kvöld voru það Keflvíkingar sem höfðu betur á ögurstundu.

„Þeir fara í hörku og berjast fyrir lífi sínu á síðustu mínútunum, sem við vissum alveg að þeir myndu gera. Mér fannst nokkur atriði úti á vellinum vafasöm, m.a. frá bolta og svoleiðis sem kemur kannski ekki á óvart.“

Létu leikmenn Hauka mótlætið fara of mikið í sig?

„Já, ég held það, við létum þá fara svolítið í hausinn á okkur. Það er eins og við vorum að búast við einhverju frá dómurunum en við vitum að þeir komast oftast upp með það. Það þýðir ekkert að vera kvarta yfir því, það er bara einbeitingarleysi hjá okkur að missa hausinn.“

Keflvíkingar voru undir í síðasta leikhlutanum en sneru taflinu svo sér í vil og var Kári ósáttur með hvernig Haukar köstuðu forystunni frá sér.

„Við erum komnir í níu stig í byrjun fjórða og þá eigum við að klára leikinn, sigla þessu heim. En við gefum þeim trú á að komast inn í leikinn og þar snerist þetta. Við fengum tækifæri til að gera þetta spennandi en einbeiting var slök í lokin, það er bara alltof dýrt. Nú þurfum við bara að berja okkur saman og vinna í Keflavík aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert