„Það brosa allir í Skagafirði“

Axel Kárason spilaði vel gegn Grindavík.
Axel Kárason spilaði vel gegn Grindavík. mbl.is/Árni Sæberg

Axel Kárason hefur heldur betur hitt á góða leiki í úrslitakeppninni í körfubolta. Hann skoraði úr fjórum þriggja stiga skotum í kvöld þegar Tindastóll lagði Grindavík 84:81 á Sauðárkróki. Einvígið unnu Stólarnir 3:0 og nú er að sjá hvaða lið verður næsti andstæðingur þeirra. Axel kom í stutt spjall eftir leikinn í kvöld.

Sæll Axel. Þetta var frábær sería hjá ykkur og þið bjóðið stuðningsmönnum ykkar upp á tvo geggjaða leiki hér á Sauðárkróki.

 „Já, það er bara gleði hér á hverju andliti. Við bjuggumst ekki við öðru en góðum leik frá Grindvíkingum og þeir voru nálægt því að leggja okkur. Mér fannst við ekki alveg nógu mikið á tánum fram að hálfleik og þá sérstaklega í vörninni. Við létum þá ekki hafa nógu mikið fyrir hlutunum. Þeir fengu að rúlla í gegnum kerfin sín án þess að við værum að trufla þá. Þess vegna gátu þeir dútlað í gegn hjá okkur og fundið það sem þeir voru að leita að. Síðan náðum við að skrúfa aðeins upp í þessu og svo var leikurinn bara jafn allt til loka. Ég held að það hafi mest verið sex stiga munur í seinni hálfleiknum.“

Þú ert að byrja tvo síðustu leiki á bekknum. Það virðist fara vel í þig þar sem þú ert farinn að raða niður þristum. Fimm af sjö í síðasta leik og fjórir af sex í kvöld. Hvað er eiginlega í gangi?

„Þar sem ég er nú orðinn þetta gamall þá er nú fínt að setjast bara á bekkinn og teygja á eftir upphitunina, aðeins að liðka sig. Þegar maður er þetta reynslumikill þá skiptir það ekki öllu hvort maður byrji leikina. Það er ágætt að fá nokkrar mínútur til að lesa hvernig leikurinn er að spilast og svo framvegis.“

Það eru stöðugar breytingar á byrjunarliðinu, menn vita svo að þeir eru að fara að koma inn og menn virðast vita algjörlega hvert hlutverk þeirra er.

„Þetta er bara skák og þjálfarinn er alltaf að finna nýjar blöndur sem eiga að virka saman. Þannig þarf hitt liðið að hugsa og bregðast við. Það er ekkert heilagt hverjir eiga að byrja hjá okkur og það er bara ofmetið sem einhvers konar staða eða standard innan liða. Þetta snýst bara um að vinna. Og á meðan brosa allir í Skagafirði.“

Þjálfari Grindvíkinga hrósaði ykkur mikið og vonaðist til að þið færuð sem lengst.

„Ég verð líka að hrósa Grindvíkingum. Þeir komu hingað mjög sterkir. Höfðu fundið hluti sem voru að virka fyrir þá og mjólkuðu þá vel.“

Þá er það hin klassíska spurning. Það er líklegast að þið mætið KR eða ÍR. Hvort vilt þú fá KR og hafa heimaleikjaréttinn eða ÍR og þurfa að byrja á útivelli?

„Kosturinn við að spila við KR er að þá yrðu færri ferðir til Reykjavíkur. Mér finnst frekar leiðinlegt að fara þangað. Það hefur allt sína kosti og galla og þannig lagað þá skiptir þetta ekki rosalega miklu máli“ sagði, að eigin sögn, hinn aldni Axel Kárason en miðað við talanda og orðanotkun þá er ekki ólíklekt að Axel sé fæddur um miðja síðustu öld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert