Einn leikur hefði verið sanngjarn

Matthías Orri Sigurðarson sækir að körfu Stjörnumanna í einvíginu.
Matthías Orri Sigurðarson sækir að körfu Stjörnumanna í einvíginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

ÍR missti einn sinn besta mann í Ryan Taylor í þriggja leikja bann í dag. Fékk hann bannið fyrir högg sem hann gaf Hlyni Bæringssyni í þriðja leik ÍR og Stjörnunnar átta liða úrslitum Íslandsmótsins. Matthías Orri Sigurðarson, einn mikilvægasti hlekkurinn í ÍR-liðinu var ekki sáttur við lengd bannsins er mbl.is sló á þráðinn til hans í dag.

„Þegar þetta gerist í leiknum er ég á leiðinni í layup og sé ekkert hvað er að gerast fyrr en eftir á. Það eru margir hlutir sem ber að íhuga þarna og er af þeim eru að dómararnir eru með þrjú sjónarhorn og þeir meta það þannig að þetta sé óíþróttamannsleg villa. Mér finnst svekkjandi að þetta séu þrír leikir, einn hefði verið mjög sanngjarn fyrir aðila."

Taylor missir af fjórða leik liðanna í Garðabænum á morgun og svo annað hvort tveimur fyrstu leikjunum í undanúrslitum eða af fimmta leik ÍR og Stjörnunnar, nái Stjarnan að vinna á morgun. 

„Það er bæði hægt að verja hans hlið og verja þeirra hlið. Við sem ÍR-ingar stöndum við bakið á okkar manni. Við ætlum að gera okkar besta á morgun til að klára seríuna og vonandi leyfum við honum að spila á þessu tímabili."

„Hann er frábær leikmaður og einn sá besti í deildinni. Fjarvera hans mun breyta miklu fyrir okkur en að sama skapi erum við með marga frambærilega leikmenn sem hafa verið að leggja í púkkið í allan vetur. Við verðum að taka okkur saman sem lið og setja meiri ábyrgð á aðra leikmenn til að brúa bilið sem er að missa hann. Við höfum trú á því að við getum klárað þetta án hans."

Matthías segist ekki hafa heyrt í Taylor eftir að þriggja leikja bannið var staðfest. 

„Hann var að bíða og sjá hvað gerðist. Það er hægt að rökræða báðar hliðar mjög vel. Það er hins vegar þriðji aðili sem tekur á þessu máli og það er ekkert sem við eða Stjarnan getum gert, hvorki okkar á milli né við almenning hvað mun gerast. Við verðum að virða þessa ákvörðun þó við séum ekki sammála henni. Vonandi mun fólk sjá hans hlið á þessu máli. Við styðjum okkar mann og við getum klárað þetta án hans," sagði Matthías. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert