Slagurinn hefst á Króknum

Sigtryggur Arnar Björnsson hefur farið á kostum í vetur hjá …
Sigtryggur Arnar Björnsson hefur farið á kostum í vetur hjá Tindastóli. mbl.is//Hari

Fyrsti leikurinn í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik fer fram á Sauðárkróki í kvöld og hefst klukkan 19:15. 

Tindastóll tekur þar á móti KR en vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari. Tindastóll hafnaði í 3. sæti í Dominos-deildinni í vetur en KR í 4. sæti. Skagfirðingar eiga þar af leiðandi heimaleikjaréttinn ef til oddaleiks kemur. 

KR er Íslandsmeistari síðustu fjögurra ára en Tindastóll er bikarmeistari eftir sigur á KR í úrslitaleik í Laugardalshöll í janúar. 

Tindastóll sló út Grindavík 3:0 og ÍR 3:1 á leið sinni í úrslitin. KR sló út Njarðvík 3:0 og Hauka 3:1 á leið sinni í úrslitin. Liðin hafa því leikið jafn marga leiki í vetur því þau fóru bæði alla leið í bikarúrslitin eins og áður segir. 

Leikurinn verður í beinni atvikalýsingu hér á mbl.is í kvöld.  

Kristófer Acox er í stóru hlutverki hjá KR.
Kristófer Acox er í stóru hlutverki hjá KR. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert