„Ætlum að klára dæmið með stæl“

Þóra Kristín (3) í leiknum í kvöld en Aalyah Whiteside …
Þóra Kristín (3) í leiknum í kvöld en Aalyah Whiteside sækir að körfu Hauka. mbl.is/Árni Sæberg

„Hjá okkur var mjög mikill munur á þessum leik og öðrum leiknum á Hlíðarenda. Í síðasta leik vorum við svolítið slakar og ekki tilbúnar andlega. Við mættum tilbúnar andlega í þennan leik og tilbúnar til að taka sigur og mér fannst það sjást í kvöld,“ sagði Þóra Kristín Jónsdóttir, bakvörður Hauka, þegar Morgunblaðið ræddi við hana að sigurleiknum loknum gegn Val á Ásvöllum í kvöld.  

Haukar sigruðu 96:85 í þriðja leik liðanna í úrslitarimmunni á Íslandsmóti kvenna í körfuknattleik og eru 2:1 yfir en vinna þarf þrjá leiki til að verða meistari. „Við vorum frekar ákveðnar og tókum fleiri fráköst en þær. Við sýndum meiri baráttu og ákefð og það skóp sigurinn,“ sagði Þóra sem átti stórleik og skoraði 22 stig en hún setti niður fjögur þriggja stiga skot og hún er orðin mjög bjartsýn á stöðuna. 

„Við erum nánast með glænýtt lið eða nánast. Í þessu liði er Helena eiginlega sú eina sem spilaði með Haukum í úrslitum fyrir tveimur árum. Við erum að gera þetta í fyrsta skipti og ætlum að klára dæmið með stæl.“

<a href="https://www.mbl.is/sport/korfubolti/2018/04/24/haukar_sigri_fra_titlinum/" target="_blank">Haukar sigri frá titlinum</a>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert