Cleveland jafnaði metin

LeBron James að skora tvö af 44 stigum sínum.
LeBron James að skora tvö af 44 stigum sínum. AFP

LeBron James dró vagninn einu sinni sem oftar fyrir Cleveland Cavaliers þegar liðið lagði Boston Celtics að velli 111:102 í úrslitum Austurdeildarinnar í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Staðan í einvíginu er þar með orðin 2:2 en vinna þarf fjóra leiki til að fara í úrslitarimmuna um NBA-meistaratitilinn.

LeBron skoraði 44 stig, tók 5 fráköst og gaf 3 stoðsendingar en hann stefnir á að leika til úrslita um meistaratitilinn í áttunda sinn og í fjórða skipti með Cleveland. Þetta var í sjötta sinn í úrslitakeppninni se hann skorar 40 stig eða meira. Kyle Korver skoraði 14 stig fyrir Cleveland og þeir Tristian Thompson og George Hill voru með 13 stig hvor. Jaylen Brown var atkvæðamestur í liði Boston með 25 stig, Jayson Tatum skoraði 17.

Fimmti leikur liðanna fer fram í Boston á miðvikudaginn þar sem Boston hefur ekki tapað leik í úrslitakeppninni og sjötti leikurinn verður í Cleveland á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert