Breiðablik krækir í Hilmar

Hilmar Pétursson, t.v., hefur gengið til liðs við nýliða Breiðabliks …
Hilmar Pétursson, t.v., hefur gengið til liðs við nýliða Breiðabliks í úrvalsdeildinni í körfuknattleik. Ljósmynd/Breiðablik

Nýliðar úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Breiðablik, hafa krækt í hinn unga Hilmar Pétursson frá Haukum. Þetta kom fram á heimasíðu Breiðabliks í morgun. 

Hilmar byrjaði síðasta tímabil með Keflavík og lék 15 leiki fyrir liðið og skoraði að jafnaði sex stig, átti tvær stoðsendingar og tók tvö fráköst á þeim 16 mínútum sem hann lék að meðaltali í hverjum leik Keflavíkur. Hilmar færði sig svo um set og lauk tímabilinu með uppeldisfélagi sínu Haukum.

Hilmar er fæddur árið 2000 og varð á dögunum Íslandsmeistari með Haukum í drengjaflokki, þar sem hann skoraði 30 stig, hirti átta fráköst og gaf þrjár stoðsendingar í úrslitaleik gegn KR.  Hilmar var valinn leikmaður úrslitaleiksins.

Pétur Ingvarsson, faðir Hilmars, var fyrir skömmu ráðinn þjálfari Breiðabliks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert