Í úrslitum áttunda árið í röð

LeBron James gerir sig breiðan í leiknum í nótt.
LeBron James gerir sig breiðan í leiknum í nótt. AFP

Glæsilegur ferill bandaríska körfuboltamannsins LeBron James varð enn glæsilegri í nótt þegar hann komst í úrslitarimmu NBA-deildarinnar áttunda árið í röð. Cleveland Cavaliers hafði betur 87:79 í oddaleiknum gegn Boston Celtics. 

James er potturinn og pannann í leik Cleveland-liðsins sem fór í gegnum mannabreytingar á miðju keppnistímabili. Í gær var liðið auk þess án Kevin Love sem ekki gat leikið eftir að hafa fengið heilahristing. 

James skoraði 35 stig, tók 15 fráköst, gaf 9 stoðsendingar og stal boltanum tvívegis í Boston í nótt og lék í 48 mínútur en James er 33 ára gamall. Hann hefur fjórum sinnum komist í úrslit með Cleveland og fjórum sinnum með Miami Heat. Í nótt jafnaði hann met Bills Russell sem fór átta sinnum í röð í úrslit með Boston. 

Jayson Tatum var stigahæstur hjá Boston með 24 stig og Al Horford gerði 17 stig. Cleveland mætir annað hvort meisturunum í Golden State eða Houston í úrslitum deildarinnar en framundan er oddaleikur þeirra liða í Vesturdeildinni. 

LeBron James og Jaylen Brown hjá Boston fallast í faðma …
LeBron James og Jaylen Brown hjá Boston fallast í faðma þegar úrslitin voru ljós. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert