Erum klikkuð þjóð sem vill vinna alla

Martin Hermannsson á fullri ferð í leik gegn Tékkum í …
Martin Hermannsson á fullri ferð í leik gegn Tékkum í undankeppni HM. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta verkefni leggst mjög vel í mig. Það er alltaf gaman að hitta strákana og komast í annað æfingaumhverfi en maður er vanur hjá sínu félagsliði,“ sagði Martin Hermannsson, leikmaður íslenska landsliðsins í körfuknattleik í samtali við mbl.is á æfingu liðsins í DHL-höllinni í dag.

Íslenska liðið mætir Búlgaríu og Finnlandi í undankeppni HM, dagana 29. júní og 2. júlí næstkomandi en sigur gegn Búlgaríu tryggir liðinu áfram í milliriðla. Ísland verður án leikmanna sem hafa verið í lykilhlutverki í landsliðinu, undanfarin ár en Martin er spenntur að takast á við þá áskorun.

„Við erum með mikið breytt lið frá síðustu leikjum. Pavel, Jakob, Jón Arnór og Logi er ekki með okkur núna og það verður gaman að sjá hvernig við bregðumst við því. Það eru ungir leikmenn að koma inn í þetta og þeir fá stórt tækifæri í þessum tveimur leikjum gegn Búlgaríu og Finnlandi. Ég hefði kannski viljað bíða aðeins með svona mikla endurnýjun í liðinu, þótt það sé vissulega alltaf jákvætt að fá inn nýja og ferska menn. Leikmennirnir sem eru að detta út hafa dregið aðeins vagninn hjá okkur, undanfarin ár og hafa mikla reynslu. Að sama skapi er þetta mikil áskorun fyrir okkur ungu strákana og núna þurfum við bara að sýna úr hverju við erum gerðir.“

Jón Arnór Stefánsson verður ekki með liðinu í leikjunum gegn …
Jón Arnór Stefánsson verður ekki með liðinu í leikjunum gegn Búlgaríu og Finnlandi vegna meiðsla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ætlaði sér að verða lykilmaður í landsliðinu

Liðið þarf einn sigur úr leikjunum tveimur til þess að tryggja sig áfram í milliriðla en Martin ítrekar að það komi ekkert annað til greina en sigur gegn Búlgaríu í fyrri leiknum, 29. júní.

„Við þekkjum Búlgaríu vel og það er ýmislegt sem við getum tekið með okkur úr fyrri leiknum gegn þeim í Laugardalshöllinni. Við áttum að vinna þann leik en það þýðir ekki að dvelja við það. Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur, ekki bara fyrir okkur heldur líka fyrir íslenskan körfubolta og við ætlum okkur að vinna þennan leik. Það er vissulega jákvætt að hafa það á bakvið eyrað að við eigum ennþá möguleika á því að fara áfram, ef við töpum gegn Búlgaríu og vinnum Finnana. Við höfum sýnt það að við getum unnið Finnland og við stóðum vel í þeim á Eurobasket. Við erum þessi klikkaða þjóð sem heldur að hún geti unnið alla og vill vinna alla.“

Martin hefur verið algjör lykilmaður í þessari undankeppni og í fjarveru Jóns Arnórs Stefánssonar verður ennþá meiri ábyrgð á honum í leikjunum tveimur.

„Um leið og ég byrjaði í körfubolta sex ára gamall ákvað ég það að ég yrði lykilmaður í íslenska landsliðinu í körfubolta. Ég lít í raun bara á það sem heiður að fá þetta hlutverk í landsliðinu, þrátt fyrir að vera ungur að árum. Ég er búinn að vera í landsliðinu í sex ár og ég hef lært af þeim bestu. Að sama skapi er ég kominn í hóp eldri manna í landsliðinu og það er ákveðinn skellur líka. Ég tek þessu hlutverki hins vegar fagnandi og vonandi mun ég ekki valda neinum vonbrigðum í leikjunum gegn Búlgaríu og Finnlandi.“

Tryggvi Snær Hlinason tók þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar í síðustu …
Tryggvi Snær Hlinason tók þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar í síðustu viku en var ekki valinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Höfum aldrei átt leikmann eins og Tryggva

Tryggvi Snær Hlinason tók þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar í körfuknattleik í síðustu viku en var ekki valinn. Hann mætti því seinna til æfinga en aðrir en Martin segir að hann breyti leik liðsins mikið með nærveru sinni.

„Tryggvi breytir þessi liði algjörlega. Hann gefur okkur allt aðra vídd en við erum vanir. Við erum vanir því að hann taki ekki alltaf mikinn þátt í undirbúningnum með okkur en við nýtum tímann með honum mjög vel. Við höfum aldrei átt leikmann eins og hann, með fullri virðingu fyrir öðrum stórum mönnum. Hann er leikmaður sem íslenskur körfubolti hefur ekki séð áður.“

Þrátt fyrir að liðið sé ungt að árum þekkjast leikmenn liðsins vel og Martin telur það vera eitthvað sem liðið geti nýtt sér.

„Körfuboltaheimurinn á Íslandi er mjög lítill og þekkjast allir mjög vel. Við höfum allir spilað á móti hvor öðrum í gegnum yngri flokkana og með meistaraflokki og hópurinn núna þekkist því mjög vel. Við erum allir góðir vinir, utan vallar og þótt við hittumst kannski ekki á hverjum degi þá erum við allir í miklu sambandi og það verður gaman að sjá hvernig okkur gengur að spila saman í komandi leikjum,“ sagði Martin léttur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert