Lakers vann eftir tvær framlengingar

Josh Hart hefur spilað gríðarlega vel í sumardeildinni.
Josh Hart hefur spilað gríðarlega vel í sumardeildinni. AFP

Los Angeles Lakers og Portland Trail Blazers leika til úrslita í sumardeild NBA-körfuboltans í Bandaríkjunum eftir sigra í undanúrslitaleikjum sínum í Las Vegas í nótt.

Lakers hafði betur gegn Cleveland Cavaliers í spennuþrungnum leik og að lokum réðust úrslitin í tvíframlengdum leik. Lokatölur urðu 112:109, Lakers í vil.

Josh Hart, sem að marga mati hefur verið besti leikmaður sumardeildarinnar í ár, skoraði 37 stig fyrir Lakers og nýliðinn Svi Mykhailiuk gerði 31 stig. Hart var valinn af Lakers í nýliðavalinu á síðustu leiktíð og byrjaði nokkra leiki undir lok síðasta tímabils. 

Hjá Cleveland var Collin Sexton stigahæstur með 27 stig. Sexton var valinn áttundi af öllum í nýliðavalinu í ár og varð m.a heimsmeistari 17 ára og yngri með bandaríska landsliðinu fyrir tveimur árum. 

Portland hafði betur á móti Memphis Grizzlies í hinum undanúrslitaleiknum, 97:92. Archie Goodwin, sem lék með Brooklyn Nets í fyrra, gerði 22 stig fyrir Portland og nýliðinn frá því í fyrra, Caleb Swanigan, bætti við 21 stigi. 

Úrslitaleikurinn fer fram kl. 2 næstu nótt, en Lakers hefur titil að verja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert