Staðan versnar í Þýskalandi

Snjólfur Stefánsson.
Snjólfur Stefánsson. Ljósmynd/FIBA

Karlalandsliðið í körfuknattleik skipað leikmönnum 20 ára og yngri heldur áfram að tapa leikjum sínum í A-deild Evr­ópu­meist­ara­móts­ins sem fram fer í Þýskalandi. Liðið er nú að spila um 9.-16. sæti keppninnar og tapaði 94:72-gegn Úkraínu rétt í þessu.

Liðið tapaði öllum þremur leikjum sínum í riðlakeppninni og beið þess svo ósigur gegn gestgjöfum Þýskalands í 16-liða úrslitunum.

Ingvi Guðmundsson var stigahæstur íslenska liðsins með 15 stig en á eftir honum kom Þórir Þorbjarnarson með 13. Sigurkarl Jóhannesson tók níu fráköst og þeir Ingvi, Hákon Hjálmarsson og Þórir voru allir með þrjár stoðsendingar.

Nú taka við tveir úrslitaleikir til viðbótar þar sem mikið er í húfi. Strákarnir mæta Grikkjum á laugardaginn og tapist sá leikur mun Ísland falla niður í B-deildina eftir að hafa keppt lokaleik um 15. eða 16. sætið en neðstu þrjú liðin falla. Takist aftur á móti strákunum að sigra Grikkland spila þeir hreinan úrslitaleik á sunnudaginn. Með sigri myndu þeir enda í 13. sæti og halda sæti sínu í deildinni en tap myndi skila 14. sæti og jafnframt falli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert