Fyrsti sigurinn kom gegn Makedóníu

Íslenska liðið vann sinn fyrsta sigur á Evrópumótinu í dag.
Íslenska liðið vann sinn fyrsta sigur á Evrópumótinu í dag. Ljósmynd/FIBA

Íslenska stúlknalandsliðið i körfuknattleik, skipað leikmönnum 16 ára og yngri, vann í dag sinn fyrsta sigur í B-deild Evrópumótsins í Svartfjallalandi þegar liðið lagði Makedóníu, 64:55. Íslenska liðið leiddi með 6 stigum eftir fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta skoraði liðið einungis 3 stig og var staðan því 29:24 fyrir Makedóníu í hálfleik. Stelpurnar unnu hins vegar þriðja og fjórða leikhluta sannfærandi og sigurinn því sanngjarn þegar uppi var staðið.

Hjördís Traustadóttir var atkvæðamest í íslenska liðinu með 16 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar. Þá skoraði Natalía Jónsdóttir 14 stig, tók 9 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Helga Hreiðarsdóttir skoraði 11 stig, tók 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar.

Íslenska liðið endar í fimmta sæti A-riðils og mun því leika um 17.-22 sæti mótsins en sá leikur fer fram á fimmtudaginn næsta. Ekki er enn þá ljóst hver verður mótherji Íslands í leiknum og mun það skýrast síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert