Angrar mig gríðarlega mikið

Arnar Guðjónsson ræðir við sína menn.
Arnar Guðjónsson ræðir við sína menn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, hrósaði liði Skallagríms meira en eigin liði eftir 82:72-sigur á Borgnesingum í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Skallagrímur var sterkari í fyrri hálfleik en Stjarnan keyrði yfir gestina í þeim síðari. 

„Skallagrímsmenn voru flottir í fyrri hálfleik, það má ekki gleyma því. En við vorum svolítið að missa af sendingum í fyrri hálfleik og menn voru að hugsa of mikið um sjálfa sig í sókninni. Í vörninni vorum við bara ekki nógu sterkir."

„Skallarnir eiga hrós skilið. Finnur og Hörður eru að gera flotta hluti með þá og þeir gera helling af hlutum vel og gerðu okkur erfitt."

Stjarnan er búin að vera undir eftir fyrsta leikhluta í öllum þremur leikjum sínum til þessa. Arnar segir það áhyggjuefni, þrátt fyrir að liðið sé búið að vinna alla leikina til þessa. 

„Það angrar mig gríðarlega mikið. Við megum ekki falla í þá gryfju að láta sigra fela mistökin okkar. Það er áhyggjuefni að við komum alltaf út eins og við séum andlausir, ég veit ekki af hverju. Kannski höldum við að við séum betri og þetta komi að sjálfu sér, en svo er ekki. Við getum tekið lærdóm af Borgnesingum og Breiðabliki sem berjast fyrir lífi sínu. Þá getum við verið góðir í körfubolta, en akkúrat núna gerist það of sjaldan," sagði Arnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert