KR slapp fyrir horn

Halldór Garðar Hermannsson sækir að körfu KR en til varnar …
Halldór Garðar Hermannsson sækir að körfu KR en til varnar er Jón Arnór Stefánsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmeistarar KR sluppu fyrir horn er stigalausir Þórsarar frá Þorlákshöfn komu í heimsókn í Vesturbæinn í 3. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í gærkvöldi. Lokatölur urðu 86:85, KR í vil. Þór var með 83:78 forystu þegar tvær mínútur voru til leiksloka en þá fór allt í baklás og seigla KR-inga tryggði þeim stigin tvö sem í boði voru.

KR-ingar spila oft betur og tapa leikjum og Þórsarar spila oft verr og vinna leiki. Ákveðin meistaraheppni virtist ganga til liðs við KR þegar mest var undir. Þórsarar sýndu strax í byrjun að þeir ætluðu að leggja allt í sölurnar gegn breyttu liði meistaranna. Þeir komu afar tilbúnir til leiks og heimamönnum var brugðið. Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, tók leikhlé snemma leiks og vöknuðu lærisveinar hans fyrir vikið og var leikurinn jafn og spennandi eftir það og allt til loka. Þórsara skorti hins vegar trú í blálokin og KR-ingar voru fljótir að þefa uppi veikleikamerki og nýta sér það.

KR-liðið er mikið breytt frá því á síðustu leiktíð og er leikmannahópurinn ekki eins sterkur og undanfarin ár. Liðið er enn að spila sig saman og það gæti tekið tíma áður en Ingi Þór nær fram því besta frá sínum mönnum. Björn Kristjánsson er með stærra hlutverk en í fyrra og virðist hann njóta þess. Björn hitti úr fjórum af fimm þriggja stiga skotum sínum og reif sína menn upp þegar illa gekk. Jón Arnór Stefánsson gerði sitt og gerði það vel, en aðrir leikmenn eiga nokkuð inni. Julian Boyd var nokkuð frá sínu besta og Emil Barja hefur ekki smollið vel inn í liðið til þessa. Þrátt fyrir það tókst KR að vinna og það er stórt styrkleikamerki að vinna leiki þegar spilamennskan er ekki upp á 10.

Sjá allt um leikina í Dominos-deildinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert