Þurftum kannski smá rassskellingu

Baldur Þorleifsson, þjálfari Snæfells, á hliðarlínunni í kvöld.
Baldur Þorleifsson, þjálfari Snæfells, á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Hari

„Ég er ekki sáttur með það hvernig við mætum í þennan leik og mér finnst örla fyrir smá vanmati hjá mínu liði,“ sagði Baldur Þorleifsson, þjálfari Snæfells, í samtali við mbl.is eftir 72:69-tap liðsins gegn KR í 4. Umferð Dominos-deildar kvenna í körfuknattleik í DHL-höllinni í Vesturbænum í kvöld.

„Við eyðum öllum fyrri hálfleiknum í að elta þær og öll okkar orka fer í raun í einhvern óþarfa og einhverja vitleysu. Þessi úrslit trufla mig samt sem áður ekki mikið, þetta er einn leikur og kannski þurftum við smá rassskellingu til þess að ná okkur aftur niður á jörðina eftir góða byrjun á tímabilinu. KR-liðið var að spila vel saman á meðan við vorum að reyna of erfiða hluti í stað þess að nýta okkur sterka liðsheild okkar.“

Baldur segir það í raun ótrúlegt að hans stúlkur hafi náð að hanga inni í leiknum, eftir mjög slæma byrjun.

Gunnhildur Gunnarsdóttir sækir í átt að körfunni í leiknum í …
Gunnhildur Gunnarsdóttir sækir í átt að körfunni í leiknum í kvöld. mbl.is//Hari

Allt á réttri leið

„Við vorum ekki að spila sama varnarleik í kvöld og við höfum gert í upphafi tímabils. Undir restina þá var það ein sókn, til eða frá, sem skildi liðin að sem var í raun ótrúlegt miðað við spilamennsku okkar í fyrri hálfleik. Það var í raun hálfótrúlegt að við skyldum ná að hanga svona lengi inni í leiknum. KR reyndi að verja forskot sitt og við gengum á lagið og kannski hefðum við þurft nokkrar sekúndur í viðbót til að klára þetta.“

Þjálfarinn er ánægður með þróun liðsins og telur sínar stúlkur vera á réttri leið.

„Það eru lykilmenn að snúa aftur til okkar og það riðlar alltaf leik liðsins, upp að vissu marki. Við erum enn þá að slípa okkur saman og liðið er ekki alveg komið á þann stað sem ég vil að við séum en það kemur hægt og rólega. Stundum þarf að taka eitt skref aftur á bak til þess að fara tvö skref áfram,“ sagði Baldur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert