„Þurfum að koma þeim á óvart“

Helena á landsliðsæfingu í gær.
Helena á landsliðsæfingu í gær. mbl.is/Árni Sæberg

„Þær koma hingað með hrikalega sterkt lið,“ segir Helena Sverrisdóttir, landsliðskona í körfuknattleik, en á laugardaginn mætir Ísland öflugu liði Slóvakíu í Laugardalshöllinni í undankeppni EM. 

Helena þekkir til í Slóvakíu eftir að hafa spilað þar í atvinnumennskunni. Hún segist ekki sjá annað en að Slóvakía geti teflt fram sínu sterkasta liði. „Þær eru efstar í riðlinum og hafa staðið sig mjög vel. Auk þess eru þær ekki með leikmenn í Bandaríkjunum eins og við. Jákvætt er fyrir íslenska leikmenn að spila í háskólaboltanum í Bandaríkjunum en það þýðir að þær geta ekki spilað með landsliðinu á meðan. Slóvakar eru ekki í þeirri stöðu.“

Helena segir að ekki sé hægt að horfa fram hjá því að íslenski hópurinn sé þunnskipaður vegna forfalla í þetta skiptið og þá sérstaklega varðandi hávaxna leikmenn. „Sandra og Ragna Margrét eru ekki með en við verðum bara að takast á við það. Ég veit ekki hvort það sé Íslendingablóðið í manni eða hvað en ég fer í alla leiki og tel að ég geti unnið. Við höfum svo sem sýnt það áður til dæmis þegar við unnum gríðarlega sterkt lið Ungverjalands í Höllinni. En til þess að vinna lið eins og Ungverjaland og Slóvakíu þá þarf margt að ganga upp hjá okkur. Við þurfum að sýna þvílíka baráttu og spila góða vörn. Skotin fyrir utan þurfa að detta niður og þá sérstaklega núna þegar við erum ekki með marga hávaxna leikmenn undir körfunni. Við þurfum að reyna að koma þeim á óvart,“ sagði Helena í samtali við mbl.is á landsliðsæfingu í Grafarvogi. 

Leikur Íslands og Slóvakíu hefst klukkan 16. Slóvakía er efst í riðlinum með sjö stig en Ísland neðst með fjögur stig. Riðillinn er sterkur en þar eru einnig Bosnía og Svartfjallaland. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert