Elvar með Njarðvík út tímabilið

Elvar Már Friðriksson.
Elvar Már Friðriksson. Ljósmynd/UMFN

Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfuknattleik, mun leika með Njarðvíkingum út tímabilið en þetta var staðfest á heimasíðu UMFN í morgun. 

Elvar sem síðustu fjögur ár spilaði í háskólaboltanum í Bandaríkjunum hóf keppnistímabilið sem atvinnumaður hjá Denan í Frakklandi en skipulagsbreytingar hjá liðinu urðu þess valdandi að samningi við Elvar var sagt upp. 

Elvar hugðist halda áfram í atvinnumennskunni en hugur hans leitaði líka heim. Úr varð að Elvar gerði samning til loka tímabils og mun því að öllum líkindum spila með Njarðvíkingum gegn Grindavík á morgun í Dominos-deildinni. 

Ljóst er að Elvar verður uppeldisfélagi sínu mikill liðsstyrkur en Njarðvíkingar hafa farið býsna vel af stað í upphafi tímabilsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert