KR 2.0

Ingi Þór Steinþórsson hefur ekki undan að bjóða gamla KR-inga …
Ingi Þór Steinþórsson hefur ekki undan að bjóða gamla KR-inga velkomna á æfingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leikmannahópur Íslandsmeistara karla í körfuknattleik, KR-inga, hefur tekið stakkaskiptum frá því keppnistímabilið hófst. Finnur Atli Magnússon verður í leikmannahópnum í kvöld. 

Visir.is hefur eftir Finni að hann verði á skýrslu hjá KR í kvöld þegar liðið leikur á móti Haukum, liðinu sem Finnur lék með á síðasta tímabili. Finnur hafði þegar haft félagaskipti í KR fyrr á tímabilinu þar sem hann vildi vera gjaldgengur með b-liði KR í bikarkeppninni. Útlit var fyrir að Finnur myndi búa í Ungverjalandi í vetur eins og fram hefur komið en hann er uppalinn í KR og varð Íslandsmeistari með liðinu 2015.

KR hóf tímabilið með leikmannahóp sem hafði verið hogginn í sundur. Darri Hilmarsson fluttist til Svíþjóðar, Kristófer Acox fór í atvinnumennsku í Frakklandi, Pavel Ermolinskij tók sér pásu og var samningslaus og Brynjar Þór Björnsson skipti um umhverfi og fór til Tindastóls. 

Smám saman er KR-liðið að taka á sig allt aðra mynd. Pavel er nýbyrjaður að spila á nýjan leik, Kristófer Acox ætlar að leika með KR eftir skamma dvöl í Frakklandi og nú virðist Finnur ætla að beita sér með aðalliðinu. Við þetta má bæta að samkvæmt heimildum mbl.is mun eldri bróðir hans, Helgi Már Magnússon, flytja heim frá Washington ásamt fjölskyldu sinni um áramótin. Fyrst Helgi spilaði með KR í úrslitakeppninni síðasta vor þá eru taldar góðar líkur á því að hann taki aftur slaginn með uppeldisfélaginu. Þá myndi bætast við sexfaldur Íslandsmeistari með KR.

Í upphafi næsta árs munu körfuboltaunnendur sjá KR 2.0 keppnistímabilið 2018-2019 og leikmannahóp sem á mun meiri möguleika á því að verja titilinn heldur en leikmannahópurinn sem hóf tímabilið að mati greinarhöfundar og vafalaust fleiri. 

KR er Íslandsmeistari síðustu fimm ára og öll árin undir stjórn Finns Freys Stefánssonar. Hann lét staðar numið í sumar og Ingi Þór Steinþórsson tók við. Ingi gerði KR að meisturum árið 2000 og var aðstoðarþjálfari þegar liðið varð meistari 2007. Auk þess gerði hann bæði karla- og kvennalið Snæfells á Íslandsmeisturum. 

Finnur Atli Magnússon er aftur kominn í KR-treyjuna.
Finnur Atli Magnússon er aftur kominn í KR-treyjuna. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert