Skynsemi og útsjónarsemi

Brynjar skorar þriggja stiga körfu í erfiðri stöðu á lokasekúndum …
Brynjar skorar þriggja stiga körfu í erfiðri stöðu á lokasekúndum fyrri hálfleiks í kvöld. mbl.is/Hari

„Á móti svona góðu varnarliði þá skiptir máli að framkvæma hlutina vel og af skynsemi en ekki ráðast alltaf á fyrsta möguleikann sem býðst í sókninni,“ sagði Brynjar Þór Björnsson, leikmaður Tindastóls, að loknum leiknum gegn Stjörnunni sem Tindastóll vann 77:68 í Garðabæ í kvöld. 

„Mér fannst við fara miklu dýpra í sóknarleikinn en við höfum verið að gera í fyrstu leikjunum og það skilaði sér. Þegar við bíðum eftir öðrum eða þriðja möguleikanum í leikkerfunum í stað þess að velja alltaf þann fyrsta þá verður erfiðara fyrir varnarmennina að dekka okkur. Fyrir vikið fengum við mörg góð skotfæri og mér leið bara mjög vel inni á vellinum,“ sagði Brynjar sem skoraði 23 stig fyrir Tindastól. 

Stjarnan og Tindastóll eru á meðal best mönnuðu liða í Dominos-deildinni. Óhætt er að fullyrða það þótt breytingar á liðunum séu reyndar býsna örar þessa dagana. Brynjar leggur áherslu á að Stjarnan sé lið sem geti varist mjög vel og því hafi þessi sannfærandi útisigur verið athyglisverður fyrir Stólana en þeir höfðu ágætt forskot nánast allan leikinn. 

„Þeir eru frábærir í vörn. Mér fannst þeir spila svakalega fast og tóku vel á okkur en sem betur fer hittum við úr skotunum til að byrja með í leiknum. Á móti kemur þá kostar það mikla orku að spila svona svakalega öfluga vörn enda pressuðu þeir okkur á köflum um allan völl. Sóknirnar þeirra liðu fyrir þetta þegar þeir fóru að þreytast. Þá varð allt erfiðara fyrir þá í sókninni,“ sagði Brynjar þegar mbl.is spjallaði við hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert