Búið að vera sagan hjá okkur

Helena Sverrisdóttir með boltann í dag.
Helena Sverrisdóttir með boltann í dag. mbl.is/Hari

Helena Sverrisdóttir, landsliðkona í körfubolta, var svekkt eftir 52:82-tap fyrir Slóvakíu í undankeppni EM í Laugardalshöll í dag. Slóvakía stakk af í fjórða leikhluta, þar sem íslenska liðið skoraði aðeins sex stig. 

„Þetta er búið að vera sagan hjá okkur í þessari undankeppni. Við byrjum sterkt en svo fer hitt liðið að gefa í og spila harðari vörn og þá höfum við engin svör. Það er óþarfi að tapa með 30. Við gáfumst ekki upp en þær fóru að raða svolítið í lokin.

Spilamennskan var ekki alveg nógu góð. Það komu kaflar og þá aðallega í fyrri hálfleik og kannski fyrstu 6-7 mínúturnar í þriðja en svo spýttu þær í lófana og við höfðum engin svör. Við þurfum að skoða þetta og reyna að bæta okkur fyrir miðvikudaginn."

Helena segir erfitt að spila sig saman, þegar eins fáir leikir eru á hverju ári og raun ber vitni. 

„Við spilum rosalega sjaldan saman og fáum fáa leiki. Þetta var leikur númer þrjú á þessu ári og það er erfitt að koma úr öllum áttum og reyna að spila sig saman á gólfinu. Við þurfum að reyna að læra af þessu."

Lokaleikur Íslands í riðlinum er á móti Bosníu á miðvikudaginn kemur. 

„Það er margt sem við getum gert til að bæta okkur. Bosnía kemur með hörkulið á miðvikudaginn og það er annar leikur sem verður erfiður," sagði Helena. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert