„Þungur róður“

Tómas Þórður Hilmarsson með boltann í leiknum í kvöld.
Tómas Þórður Hilmarsson með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Hari

„Þeir náðu eiginlega þessu forskoti á fyrstu fimm mínútunum,“ sagði Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, að leiknum loknum gegn Tindastóli í Dominos-deild karla í körfuknattleik í kvöld. Tindastóll hafði betur 77:68 í Garðabænum. 

„Þeir skoruðu rosalega grimmt til að byrja með í leiknum og voru til dæmis yfir 15:4. Við vorum undir allan leikinn og það var þungur róður. Þeir fengu góð skotfæri í upphafi leiks en á sama tíma vorum við klaufar í sókninni. Við vorum ekki nógu góðir fyrstu fimm mínúturnar,“ sagði Arnar og hann sagði niðurstöðuna sanngjarna eins og leikurinn spilaðist.

„Stólarnir áttu þetta skilið og ég óska þeim til hamingju með sigurinn. Við þurfum að skora fleiri stig til að eiga möguleika. Þú lýgur engu um það. Við skutum ekki nógu vel og það gerist stundum í þessu,“ sagði Arnar og benti á að það geti oft dugað til sigurs að fá á sig 77 stig. Slík viðmið gangi samt ekki alltaf eftir. Til dæmis sé oft nóg að skora 92 stig og vinna eins og Stjarnan gerði í tapleiknum gegn Val í síðustu umferð. 

Arnar sagði Tómas Þórð hafa verið besta mann Stjörnunnar að þessu sinni. „Mér fannst Tommi hrikalega góður í dag. Hann var okkar besti maður í kvöld og var mjög sterkur í vörninni. Þótt hann hafi bara skorað tvö stig þá var bara mikill kraftur í honum. Hann frákastaði vel og varði skot,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert