Skagfirðingar tóku KR-ingnum opnum örmum

Brynjar Þór Björnsson í kunnuglegri stöðu, með augun á körfunni, …
Brynjar Þór Björnsson í kunnuglegri stöðu, með augun á körfunni, en klæddur í fjólublátt. mbl.is/Árni Sæberg

Stórskyttan Brynjar Þór Björnsson hefur aðlagast liði Tindastóls hratt og vel í Dominos-deildinni í körfuknattleik en þar til í sumar hafði hann ekki leikið fyrir annað lið en KR hér heima. Brynjar segir Sauðkrækinga hafa opnað faðminn þegar hann fluttist á Krókinn.

Spurður um hvaða skýringu Brynjar kann á því hversu fljótt hann hefur fundið fjölina í nýju liði svaraði Brynjar: „Ég virðist bara vera svona mikið kameljón,“ og glotti. „Nei nei. Mér fannst ég hafa margt fram að færa hjá Stólunum fyrir utan það að vera körfuboltamaður. Ég er opinn og á auðvelt með að kynnast fólki. Mér hefur verið tekið opnum örmum í Skagafirði og þar er auðvelt að kynnast fólki,“ sagði Brynjar þegar mbl.is ræddi við hann í Garðabænum á föstudagskvöldið. Þá skoraði Brynjar 23 stig í sigri á Stjörnunni. 

Á síðustu árum hafa KR og Tindastóll mæst tvívegis í úrslitarimmu um Íslandsmeistaratitilinn og einu sinni í bikarúrslitum í Laugardalshöllinni. Nú er það ekkert leyndarmál að stundum var grunnt á því góða á milli leikmanna í hita leiksins og Brynjar var líklega ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Tindastóls svo það sé nú orðað pent. 

 „Þrátt fyrir mikla óvild í minn garð síðustu ár þá fann ég allt aðra strauma þegar ég mætti á staðinn sem leikmaður Tindastóls. Þegar manni líður vel þá verða hlutirnir auðveldari og fjölskyldunni líður vel á Króknum. Strákarnir í liðinu eru flottir og þetta er góður hópur leikmanna. Fyrir vikið hefur verið auðvelt að komast inn í þetta,“ útskýrði Brynjar sem á að baki átta Íslandsmeistaratitla í meistaraflokki. Hann hefur sigrað átta sinnum á síðustu tólf Íslandsmótum og getur því miðlað af reynslu sinni hjá liði sem aldrei hefur orðið Íslandsmeistari í meistaraflokki. 

„Mér fannst kannski vanta leiðtoga í þennan hóp innan og utan vallar. Einhvern sem opnar sig og tjáir sig. Lætur menn heyra það þegar þeir gera vitleysu og hrósar þegar þeir gera vel. Ég hef reynt að taka að mér það hlutverk að vera reynsluboltinn í liðinu,“ sagði Brynjar Þór Björnsson í samtali við mbl.is. 

Þessa tilfinningu þekkir Brynjar vel.
Þessa tilfinningu þekkir Brynjar vel. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert