Brynjar sló 27 ára gamalt met

Brynjar Þór Björnsson.
Brynjar Þór Björnsson. mbl.is/Árni Sæberg

Brynjar Þór Björnsson sló 27 ára og ellefu mánaða gamalt met í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld þegar hann fór hamförum í leik með Tindastóli gegn Breiðabliki í Smáranum í Kópavogi.

Hann skoraði 48 stig fyrir Sauðkrækinga, öll með 3ja stiga skotum. Hann gerði því 16 3ja stiga körfur í leiknum og sló metið sem Franc Booker setti í deildinni í janúar árið 1991. Booker skoraði þá 15 þriggja stiga körfur fyrir ÍR gegn Njarðvík, í fyrsta leik sínum á Íslandi, og jafnaði metið síðar í sama mánuði með því að skora 15 þriggja stiga körfur gegn Snæfelli.

Tindastóll vann afar öruggan sigur, 117:82, og segja má að Brynjar hafi skotið Blikana í kaf í fyrri hálfleiknum. Þá skoraði hann 33 stig, öll með þriggja stiga skotum, og staðan þegar hálfleiksflautið gall var 57:28, Sauðkrækingum í hag. 

Brynjar skoraði 18 stig í fyrsta leikhluta og hitti þá úr sex af níu 3ja stiga skotum sínum. Staðan þá var 33:18.

Brynjar skoraði 15 stig í öðrum leikhluta og hitti þá úr fimm af níu 3ja stiga skotum sínum. Samtals var hann því með 11 þriggja stiga körfur úr 18 skotum í fyrri hálfleik.

Brynjar skoraði úr fyrsta 3ja stiga skoti sínu í þriðja leikhluta en þrjú geiguðu og hann gerði því aðeins 3 stig í leikhlutanum. Eftir hann var staðan 87:50, Tindastóli í hag og Brynjar kominn með 12 þriggja stiga körfur úr 22 skotum.

Í fjórða leikhluta hvíldi Brynjar fyrstu fjórar mínúturnar, en síðan hófst hann handa á ný. Hann skoraði þrjár 3ja stiga körfur á tveimur mínútum og var þá búinn að jafna met Bookers, kominn með 15 þriggja stiga körfur úr 25 tilraunum.

En síðan geiguðu fjögur skot í röð hjá Brynjari, áður en hann sló metið þegar 75 sekúndur voru eftir af leiknum. Sextánda þriggja stiga karfan hans kom Tindastóli í 112:80.

Endanleg niðurstaða hjá Brynjari var 16 þriggja stiga körfur og 48 stig úr 31 tilraun, eða rétt ríflega 50 prósent nýting. Hann reyndi ekki 2ja stiga skot í leiknum og brást bogalistin úr sínu eina vítaskoti. Brynjar spilaði í rúmar 27 mínútur í kvöld.

Tindastóll hefur nú unnið átta af fyrstu níu leikjum sínum í deildinni og er á toppnum en Njarðvík er að spila við ÍR og getur náð Sauðkrækingum að stigum á ný. Breiðablik situr áfram á botninum með 2 stig.

Breiðablik - Tindastóll 82:117

Smárinn, Úrvalsdeild karla, 9. desember 2018.

Gangur leiksins:: 7:14, 12:23, 15:27, 18:33, 18:36, 24:47, 26:53, 28:57, 34:64, 39:70, 46:77, 51:87, 56:94, 64:100, 75:109, 82:117.

Breiðablik: Jure Gunjina 18/13 fráköst, Erlendur Ágúst Stefánsson 17/4 fráköst, Christian Covile 10/7 fráköst, Arnór Hermannsson 10, Snorri Vignisson 10/7 fráköst, Hilmar Pétursson 6, Sveinbjörn Jóhannesson 4, Bjarni Geir Gunnarsson 3, Árni Elmar Hrafnsson 3/7 fráköst, Hafþór Sigurðarson 1.

Fráköst: 31 í vörn, 17 í sókn.

Tindastóll: Brynjar Þór Björnsson 48/4 fráköst, Danero Thomas 20/5 stoðsendingar, Philip B. Alawoya 19/11 fráköst/5 stolnir, Hannes Ingi Másson 9/7 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 6, Ragnar Ágústsson 5, Pétur Rúnar Birgisson 4/13 stoðsendingar, Friðrik Þór Stefánsson 4, Dino Butorac 2.

Fráköst: 28 í vörn, 6 í sókn.

Dómarar: Ísak Ernir Kristinsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Friðrik Árnason.

Áhorfendur: 300

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert