KR vann eftir æsispennu

Kristófer Acox og félagar í KR fá heimsókn frá ÍR …
Kristófer Acox og félagar í KR fá heimsókn frá ÍR í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

KR vann 71:69-sigur á ÍR á heimavelli í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. ÍR-ingar byrjuðu miklum mun betur en KR var sterkari aðilinn í síðari hálfleik og vann eftir æsispennandi lokasekúndur. 

ÍR-ingar byrjuðu af gríðarlegum krafti og virtist KR-ingum brugðið. Staðan þegar fyrsti leikhluti var tæplega hálfnaður var 16:2, ÍR í vil. Þá tóku KR-ingar örlítið við sér en ÍR var áfram skrefinu á undan og var staðan eftir fyrsta leikhluta 24:17.

KR gekk illa að minnka muninn í öðrum leikhluta og leikmenn létu mótlætið fara illa í sig. Menn voru pirraðir og mikil orka fór í að rífast við dómara og leikmenn ÍR. KR var því ekki líklegt til að jafna metin fyrir hálfleikinn og var staðan 48:39, ÍR í vil, eftir annan leikhluta.

Liðin skiptust á að skora fyrstu mínútur síðari hálfleiks og var staðan 55:45 þegar þriðji leikhluti var hálfnaður. Þá skoruðu KR-ingar sex stig í röð og minnkuðu muninn í fjögur stig, 55:51. KR-ingar fengu nokkur góð tækifæri til að komast yfir á síðustu augnablikum þriðja leikhluta en það tókst ekki og var staðan 57:55, ÍR í vil, fyrir síðasta leikhlutann.

KR byrjaði vel í fjórða leikhluta og jafnaði Björn Kristjánsson með þriggja stiga körfu snemma í leikhlutanum, 61:61. Kristófer Acox skoraði næstu körfu og kom KR yfir í fyrsta skipti í öllum leiknum, sjö mínútum fyrir leikslok, 63:61. 

ÍR-ingar lögðu hins vegar ekki árar í bát og komust aftur yfir, fimm mínútum fyrir leikslok, 67:66. Heimamenn voru hins vegar sterkari á lokakaflanum og náðu tveimur sterkum stigum í hús. 

KR 71:69 ÍR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert