Þeir voru hrokafullir og ég svaraði

Jón Arnór Stefánsson skoraði 14 stig í kvöld.
Jón Arnór Stefánsson skoraði 14 stig í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var gott að fá hörkuleik og það var gott að klára þetta í lokin,“ sagði Jón Arnór Stefánsson, leikmaður KR, í samtali við mbl.is eftir nauman 71:69-sigur á ÍR í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. ÍR-ingar komust í 16:2 í upphafi leiks og voru yfir stærstan hluta leiks. KR var hins vegar sterkara á lokakaflanum og nældi í tvö stig. 

„Í lokin sýndum við hvernig vörn við getum spilað. Við höfum ekki spilað hana eins vel og við getum í síðustu leikjum. Það er ófyrirgefanlegt hvernig við byrjuðum leikinn, aftur. Það er lélegt hvernig við komum inn í þessa leiki og hvernig við erum að haga okkur inni á vellinum.

„Þetta var flatt hjá okkur og kom okkur á óvart. Við ætluðum að gera góða hluti en það er andlegt þegar hinir eru að hitta og við ekki. Við það fórum við á hælana og urðum smá hræddir. Þeir voru kokhraustir og hrokafullir á móti, en þeir voru ekki nógu hrokafullir til að klára leikinn.

Jón Arnór fékk tæknivillu eftir samskipti sín við Hákon Örn Hjálmarsson í fyrri hálfleik. Jón virkaði frekar pirraður undir lok hálfleiksins

„Þeir voru hrokafullir og ætluðu sér að vinna þennan leik og ég svaraði því, þar sem við vorum mjög flatir. Ég vildi peppa okkur upp og þetta er bara partur af leiknum. Við erum búnir að reyna allt; öskra, hlæja, peppa upp og allt þetta. Við erum á þeim stað að við verðum að gera betur,“ sagði Jón Arnór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert