LeBron spilaði með hendur fyrir aftan bak

LeBron James og félagar voru allt annað en sáttir.
LeBron James og félagar voru allt annað en sáttir. AFP

LeBron James og liðsfélagar hans hjá Los Angeles Lakers voru allt annað en sáttir við dómarana í leik gegn Houston Rockets í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Houston vann 126:111 og fór James Harden á kostum og skoraði 50 stig fyrir Houston. 

Athygli vakti að James og liðsfélagi hans, Lonzo Ball, spiluðu vörn með hendur fyrir aftan bak oftar en einu sinni til að mótmæla. „Ég var að reyna að spila vörn án þess að brjóta af mér. Við verðum að passa okkur á móti Houston þar sem Chris Paul og James Harden eru góðir að ná í villur," sagði James. „Það var dæmt á allt,“ bætti hann pirraður við.  

Liðsmenn Lakers voru ekki sáttir í leiknum og fengu Luke Walton, þjálfari liðsins, og leikmaðurinn Kyle Kuzma báðir tæknivillur fyrir mótmæli. Harden fór 19 sinnum á vítalínuna í leiknum og skoraði 18 sinnum. Harden fór 15 sinnum á vítalínuna í síðasta leik liðanna. 

„Þá má ekki snerta þá og ég þurfti að bregðast við því,“ sagði Lonzo Ball um athæfið. „Það er mjög erfitt að spila vörn án þess að nota hendur, en það var eina lausnin,“ bætti hann við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert