Magnaður sigur Martins í framlengingu

Martin Hermannsson var einn af betri leikmönnum Alba Berlín í …
Martin Hermannsson var einn af betri leikmönnum Alba Berlín í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, stóð fyrir sínu sem fyrr þegar lið hans Alba Berlín vann magnaðan útisigur á Rytas frá Litháen, 94:86, eftir framlengdan leik í 16-liða úrslitum Evrópubikarsins í kvöld.

Leikurinn var afar jafn og spennandi, en Litháarnir voru fjórum stigum yfir í hálfleik 36:33. Allt stefndi í sigur heimamanna, en þremur sekúndum fyrir lok venjulegs leiktíma jafnaði Alba í 79:79 og því þurfti að framlengja.

Í framlengingunni áttu Martin og félagar meira eftir á tanknum, sigu fram úr og unnu að lokum 94:86. Martin var á meðal stigahæstu leikmanna Alba í leiknum með 15 stig, átta stoðsendingar og þrjá stolna bolta. Hann lék í rúmar 28 mínútur í leiknum.

Í 16-liða úrslitunum er liðunum skipt í fjóra riðla. Með Alba og Rytas í riðli eru Mónakó og Parizan Begrad frá Serbíu. Alba hafði áður unnið Mónakó en tapað fyrir Partizan. Alba og Mónakó eru bæði með tvo sigra en hin liðin hafa unnið einn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert