Óvæntur sigur Hauka gegn Tindastóli

Haukar gerðu sér lítið fyrir og unnu sjö stiga sigur gegn meistaraefnunum í Tindastóli þegar liðin mættust í 14. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik á Ásvöllum í kvöld en leiknum lauk með 73:66-sigri Hafnfirðinga.

Mikið jafnræði var með liðunum til að byrja með en Haukarnir leiddu leikinn framan af, áður en Stólarnir gerðu áhlaup undir lok fyrsta leikhluta og leiddu þeir að honum loknum með þremur stigum, 18:15. Haukar svöruðu strax í upphafi annars leikhluta og náðu mest þriggja stiga forskoti en þá skoraði Tindastóll þrjár þriggja stiga körfur í röð og munurinn á liðunum allt í einu orðinn átta stig, 34:26. Haukar náðu að laga stöðuna fyrir lok annars leikhluta og minnka muninn í þrjú stig og staðan í hálfleik 41:38, Tindastóli í vil.

Liðin skiptust á að skora í upphafi þriðja leikhluta og var staðan 51:49, Tindastóli í vil, þegar 25 mínútur voru liðnar af leiknum. Þá settu Haukar í annan gír, með Hilmar Smára Henningsson í fararbroddi og Hafnfirðingar leiddu að loknum þriðja leikhluta með fimm stigum, 57:52. Tindastóll byrjaði fjórða leikhluta af krafti og minnkaði muninn í eitt stig, 57:56. Títtnefndur Hilmar Smári kom þá inn á og setti þriggja stiga körfu. Haukar juku forskot sitt hægt og rólega með þá Hilmar Smára og Hjálmar Stefánsson fremsta í flokki og var munurinn á liðunum átta stig þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Það bil tókst Tindastóli ekki að brúa og lokatölur því 73:66, Haukum í vil.

Hilmar Smári Henningsson var atkvæðamestur í liði Hauka með 20 stig, fjögur fráköst og fjórar stoðsendingar en hjá Tindastóli var það Pétur Rúnar Birgisson sem var stigahæstur með 15 stig, þrjú fráköst og sjö stoðsendingar. Haukar eru komnir í níunda sæti deildarinnar í 10 stig en Tindastóll er áfram í öðru sætinu með 22 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Njarðvíkur.

Haukar 73:66 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert