Litríkur leikmaður án mikilla svipbrigða

James Harden með boltann fyrir Houston Rockets.
James Harden með boltann fyrir Houston Rockets. AFP

Framganga James Harden hefur verið athyglisverð í NBA-deildinni í körfuknattleik á síðustu vikum. Oft hefur þessi kappi leikið vel en í undanförnum leikjum hefur hann farið með himinskautum eins það var orðað í frétt á mbl.is. Fyrir leik Houston Rockets gegn New York Knicks í nótt hafði Harden skorað meira en 30 stig í tuttugu leikjum í röð. Einungis goðsögnin Wilt Chamberlain hefur gert betur en það í sögu NBA.

Harden skoraði enn fremur 58, 57 og 48 stig fyrir Houston Rockets í þremur leikjum í röð. Slíkar tölur verða ekki hristar fram úr erminni í þessari deild og eru bara á færi mestu skorara í sögu deildarinnar.

Harden er hins vegar svo miklu meira en stigamaskína sem körfuboltamaður. Nægir þar að benda á að hann gaf flestar stoðsendingar allra í deildinni keppnistímabilið 2016-2017. Næsta keppnistímabil varð hann stigakóngur deildarinnar og var valinn leikmaður ársins af leikmönnum. Harden er geysilega hæfileikaríkur og boltameðferðin er í hæsta gæðaflokki. Hæfileikar hans nýtast Houston-liðinu með margvíslegum hætti. Körfuboltaáhugamaður í Hádegismóum segir til dæmis að Harden geti fiskað villur jafn auðveldlega og Kleifabergið fiskar ufsa. Ekki er eftirsóknarvert að valda leikmann sem er með framúrskarandi nýtingu í þriggja stiga skotum en getur auðveldlega brunað framhjá þér, og að körfunni, ef þú kemur langt út á móti honum í vörninni.

Ítarlega nærmynd af James Harden má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert