Nowitzki fór fram úr Chamberlain

Dirk Nowitzki og Luka Doncic fagna tímamótunum í nótt.
Dirk Nowitzki og Luka Doncic fagna tímamótunum í nótt. AFP

Þjóðverjinn Dirk Nowitzki er orðinn sjötti stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar í körfuknattleik frá upphafi. Í nótt fór hann fram úr stigamaskínunni Wilt Chamberlain. 

Nowitzki er orðinn fertugur en hann skoraði 8 stig fyrir Dallas gegn New Orleans. Nowitzki hefur nú skorað 31.424 stig í deildinni en hann er á sínu tuttugasta og fyrsta tímabili. 

Efstir á listanum eru Kareem Abdul-Jabbar, Karl Malone, Kobe Bryant, LeBron James og Michael Jordan. Tveir af efstu sex eru því enn í deildinni en ásamt Nowitzki er það að sjálfsögðu James. 

Nowitzki hefur skorað öll stigin fyrir Dallas en enginn annar NBA-leikmaður hefur náð tuttugu og einu tímabili með sama liðinu. 

Nowitzki hefur skorað nærri því 2 þúsund 3-stiga körfur í deildinni og vítanýting hans er 88%. 

Bandarískir fjölmiðlar telja að tímabilið verði það síðasta hjá Nowitzki en hann segist ekki ætla að taka ákvörðun um slíkt fyrr að tímabilinu loknu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert