Mótið er ekki búið

Darri Freyr Atlason, þjálfari Valskvenna, fer yfir málin með leikmönnum …
Darri Freyr Atlason, þjálfari Valskvenna, fer yfir málin með leikmönnum sínum á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Hari

„Þetta var svokallaður iðnaðarsigur hjá okkur. Við vorum aðeins betri þegar það skipti mestu máli á móti frábæru Keflavíkurliði,“ sagði Darri Freyr Atlason, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 80:68-sigur liðsins gegn Keflavík í toppslag Dominos-deildar kvenna í körfuknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

„Þótt við höfum verið með leikinn í okkar höndum á ákveðnum tímapunktum þá þurftum við samt sem áður stór skot til þess að bjarga okkur í þriðja leikhluta. Það var ekki þannig að við værum að fá góð tækifæri í sókninni, við þurftum að hafa fyrir hlutunum og við þurftum aðeins að treysta á ákveðna leikmenn að bjarga okkur á tímabili. Að sama skapi vorum við að fá betri skot en þær í leiknum og það var munurinn á liðunum hér í kvöld.“

Sara Rún Hinriksdóttir átti frábæran leik í liði Keflavíkur og skoraði 23 stig og viðurkennir Darri að þær hafi átt í ákveðnum vandræðum með að stoppa hana.

„Við gátum ekki búið okkur mikið undir komu Söru Rúnar enda lenti hún í morgun. Við reyndum að setja stærri mann á hana sem gekk svona upp og niður en Keflavík er betra lið með hana innanborðs og þær verða bara betri.“

Valur er komið með aðra hönd á deildarmeistaratitilinn eftir sigur kvöldsins en þjálfarinn vill ekki ganga svo langt og segja að sigurinn sé í höfn.

„Mótið er ekki búið og við erum ekki að hugsa um deildarmeistaratitilinn á þessum tímapunkti. Við ætlum okkur að klára næsta leik, sem er jafnframt næsta verkefni, og við erum ekki að fara slaka neitt á þótt við séum í frábærum séns,“ sagði Darri Freyr í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert