Besta tækifæri Njarðvíkinga í mörg ár

Elvar Már Friðriksson.
Elvar Már Friðriksson. mbl.is/Hari

Landsliðsmaðurinn Elvar Már Friðriksson verður í eldlínunni með Njarðvík gegn ÍR þegar úrslitakeppni Dominos-deildarinnar í körfuknattleik hefst. Elvar viðurkennir að tapið í bikarúrslitaleiknum hafi setið í honum. 

„Já. Það var slæmt tap. Ég hafði sett mér það markmið þegar ég kom heim að vinna titil. Þetta situr því klárlega í manni og fyrir vikið er ég enn þá hungraðari. Ég tel því að tapið í bikarnum muni hjálpa manni í úrslitakeppninni. Maður veit hversu vond tilfinning það er að tapa mikilvægum leikjum. Hjá okkur er mikið lagt undir og við lítum á þetta sem okkar besta tækifæri í mörg ár. Við reyndum við bikarinn en það hafðist ekki, nú er öll einbeiting á Íslandsmeistaratitilinn. Við leggjum allt í sölurnar bæði leikmenn og stuðningsmenn.“

Elvar segir ÍR-liðið vera gott og sé það til marks um styrk deildarinnar að ÍR hafi endað í 7. sæti í deildinni. 

„ÍR er með hörkulið og gefur til kynna hversu styrk deildin er að ÍR sé í 7. sæti. Það verður verðugt verkefni fyrir okkur. Þeir unnu okkur síðast þegar liðin mættust og lyftir það okkur heldur betur upp á tærnar,“ sagði Elvar í samtali við mbl.is á blaðamannafundi.

Njarðvík og ÍR mætast í Njarðvík í kvöld klukkan 19:15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert