Fyrsti úrslitaleikurinn á Hlíðarenda

Ásta Júlía Grímsdóttir og Brittanny Dinkins í leik Vals og …
Ásta Júlía Grímsdóttir og Brittanny Dinkins í leik Vals og Keflavíkur í vetur. mbl.is/Hari

Valur og Keflavík hefja í kvöld einvígi sitt um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik en þau mætast þá í fyrsta úrslitaleiknum á Hlíðarenda klukkan 19.15.

Valskonur urðu deildarmeistarar með 44 stig og freista þess að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil en Keflavík sem varð í öðru sæti með 42 stig hefur öllu meiri reynslu á þessum vettvangi. Keflavík hefur sextán sinnum orðið Íslandsmeistari, fyrst árið 1988 og síðast árið 2017.

Valur lék hinsvegar til úrslita í fyrsta skipti í fyrra og tapaði þá 3:2 fyrir Haukum.

Keflavík vann Val 77:69 á heimavelli í fyrsta leik liðanna í Dominos-deildinni í október en Valskonur unnu hina þrjá leikina. Fyrst 101:94 á Hlíðarenda í desember, þá 94:75 í Keflavík í febrúar og loks 80:68 á Hlíðarenda í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert