Golden State í úrslit fimmta árið í röð

Stephen Curry fagnar sigrinum í nótt en hann skoraði 37 …
Stephen Curry fagnar sigrinum í nótt en hann skoraði 37 stig. AFP

Meistarar tveggja síðustu ára, Golden State Warriors, eru komnir í úrslitin um titilinn í NBA-deildinni í körfuknattleik fimmta árið í röð eftir sigur gegn Portland Trail Blazers í framlengdum leik 119:117 í nótt.

Golden State vann einvígi liðanna í úrslitum Vesturdeildarinnar 4:0 og mætir annaðhvort Toronto Raptors eða Milwaukee Bucks í úrslitum um titilinn. Eitt lið hefur komist í úrslit oftar í röð um meistaratitilinn en Boston Celtics fór í úrslitin tíu ár í röð frá 1957 til 1966.

Stephen Curry og Draymond Green, leikmenn Golden State, náðu báðir þrefaldri tvennu í leiknum í nótt. Curry skoraði 37 stig, tók 13 fráköst og gaf 11 stoðsendingar og Green var með 18 stig, tók 14 fráköst og gaf 11 stoðsendingar.

„Ég vona að það sé ekki vanmetið en að komst í úrslit fimm ár í röð hefur ekki hefur verið gert síðan á sjötta áratugnum. Það hefur ekki verið gert af ástæðu, það er í rauninni virkilega erfitt og ég get ekki sagt nóg um þá þrá og löngum þessara leikmanna sem við erum með hér,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Golden State, eftir leikinn.

Portland náði 17 stiga forskoti í þriðja leikhlutanum en meistararnir voru ekki af baki dottnir og tókst að knýja fram framlengingu og fagna sigri í lokin. Green skoraði þriggja stiga körfu þegar 36 sekúndur voru eftir af framlengingunni og kom sínum mönnum í 119:115 og tryggði þar með sigurinn. Meyers Leonard var stigahæstur í liði Portland með 30 stig og Damian Lillard skoraði 28 stig og gaf 14 stoðsendingar.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert