Álftanes semur við Prescott

Sam Prescott leikur með Álftanesi næsta vetur.
Sam Prescott leikur með Álftanesi næsta vetur.

Köfuknattleiksdeild Álftaness hefur gert samning við Bandaríkjamanninn Sam Prescott um að leika með liðinu á næsta tímabili. Prescott þekkir vel til körfuboltans á Íslandi. Hann hefur áður leikið með Fjölni og Hamar með góðum árangri.

Þau tvö tímabil sem hann hefur leikið hér á landi hefur hann samanlagt skilað að meðaltali 29.2 stigum, 8.6 fráköstum, 3.5 stoðsendingum og 2 stolnum boltum. Prescott er frá Fíladelfíu í Bandaríkjunum og spilaði háskólabolta í Mount St. Mary's háskólanum í Maryland við góðan orðstír þar til hann hélt til Hamars haustið 2015.

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Álftaness: „Við erum ungt félag sem er að leika í fyrsta skipti í 1. deild. Í ljósi þess fannst okkur mikilvægt að ráða til okkar leikmann sem væri nokkuð öruggt að myndi skila okkur góðu framlagi. Sam er þekkt stærð í þessari deild og mjög fjölhæfur leikmaður sem getur hjálpað okkur á margan hátt á báðum endum vallarins í baráttunni sem bíður okkar.“

Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Álftaness: „Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Sam til liðs við okkur fyrir átök komandi vetrar. Þá mun Sam einnig vinna með okkur að uppbyggingu körfuboltans í yngri flokkum en við ætlum að efla það starf verulega í vetur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert