Harden hættir við heimsmeistaramótið

James Harden
James Harden AFP

Stórstjarnan James Harden hefur hætt við að leika með bandaríska landsliðinu í körfubolta á HM í Kína sem byrjar í lok ágúst. Þess í stað ætlar hann að einbeita sér að Houston Rockets í NBA-deildinni. 

Harden er önnur stjarnan á undanförnum vikum sem hættir við þátttöku með bandaríska liðinu í keppninni. Anthony Davis, leikmaður Lakers, mun ekki vera með á HM.

Stór ástæða þess að Harden spilar ekki á mótinu, er sú að Russell Westbrook gekk í raðir Houston og Harden vill aðlagast því að spila með honum. 

Kyle Lowry, leikmaður Toronto Raptors, hefur verið að glíma við meiðsli í þumal, en hann vonast til að vera búinn að jafna sig í tæka tíð til að vera með á HM. Leikmenn á borð við Damian Lillard, Kemba Walker og Bradley Beal munu gefa kost á sér í landsliðið á HM. 

James Harden lék með landsliðinu á Ólympíuleikunum í London árið 2012 og HM á Spáni 2014. Hann tók hins vegar ekki þátt í Ólympíuleikunum í Ríó 2016. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert