Nýliðinn missir af byrjun tímabilsins

Zion Williamson missir af byrjun tímabilsins í NBA-deildinni.
Zion Williamson missir af byrjun tímabilsins í NBA-deildinni. AFP

Zion Williamson, leikmaður New Orleans Pelicans í bandarísku NBA-deildinni í körfuknattleik, missir af fyrstu leikjum tímabilsins vegna meiðsla en það er BBC sem greinir frá þessu. Zion þurfti að gangast undir aðgerð á hné vegna meiðsla sem hann varð fyrir á undirbúningstímabilinu og verður hann því frá næstu sex til átta vikurnar.

Zion var valinn fyrstur í nýliðavali deildarinnar í sumar en hann er eitt mesta efnið sem deildin hefur séð á undanförnum árum. Þrátt fyrir að vera einungis 19 ára gamall er Williamson orðinn einn þekktasti íþróttamaður Bandaríkjanna í dag. Hann lék eitt tímabil með háskólaliði Duke þar sem hann skoraði 22,6 stig að meðaltali.

Tímabilið í deildinni hefst í kvöld með tveimur leikjum en Willimson gæti misst af tuttugu til þrjátíu leikjum með Pelicans í byrjun tímabilsins. Pelicans sækja meistara Toronto Raptors heim í kvöld en Williamson hefði undantekningalaust byrjað þann leik ef hann hefði ekki meiðst á liðþófa á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert