Sjötti sigurinn í röð

Giannis Antetokounmpo
Giannis Antetokounmpo AFP

Milwaukee Bucks verður eitt af bestu liðunum í NBA-deildinni í körfuknattleik í vetur eins og á síðasta keppnistímabili. 

Milwaukee er í efsta sæti Austurdeildarinnar með tólf sigra í fyrstu fimmtán leikjunum og vann í nótt Portland Trail Blazers á heimavelli 137:129. Eric Bledsoe skoraði 30 stig fyrir Milwaukee og Grikkinn Giannis Antetokounmpo er iðinn við kolann. Hann náði þrefaldri tvennu auðveldlega. Skoraði 24 stig, tók 19 fráköst, gaf 15 stoðsendingar, stal boltanum þrisvar og varði eitt skot. 

CJ McCollum skoraði 37 stig fyrir Portland og Carmelo Anthony er fljótur að finna taktinn í stigaskorun en hann skoraði 18 stig. Portland er án Damian Lilliard sem er meiddur og vert að geta þess. 

Einungis tveir leikir voru á dagskrá en New Orleans Pelicans vann Phoenix Suns á útivelli 124:121. Brandon Ingram var stigahæstur hjá New Orleans með 28 stig en Kelly Oubre jr. skoraði mest fyrir Phoenix, 25 stig. New Orleans hefur unnið sex leiki af fyrstu fimmtán en hefur nú unnið þrjá í röð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert