Tilnefndur í kjöri á besta leikmanninum

Jón Axel Guðmundsson hefur átt góðu gengi að fagna í …
Jón Axel Guðmundsson hefur átt góðu gengi að fagna í Davidson-háskólanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, hefur verið tilnefndur fyrir kjörið á besta leikmanninum í bandaríska háskólakörfuboltanum á þessu tímabili en skólinn hans, Davidson, skýrði frá þessu á Twitter.

Verðlaunin sem sigurvegarinn í kjörinu fær eru kennd við Oscar Robertsson, sem fyrstur hlaut þau árið 1959. Í fyrra hlaut þau Zion Williamson sem var valinn fyrstur í nýliðavali NBA í sumar og leikur nú með New Orleans Pelicans. Margir af bestu körfuboltamönnum sögunnar hafa hlotið verðlaunin, svo sem Michael Jordan, Kareem Abdul-Jabbar og Larry Bird.

Alls eru 46 leikmenn tilnefndir en Jón Axel hefur verið í stóru hlutverki í liði Davidson háskólans og er á fjórða og síðasta ári í skólanum. Hann var valinn besti leikmaður Atlantic 10 deildarinnar á síðasta tímabili.

Það eru samtök bandarískra körfuboltafréttamanna sem standa að kjörinu og birta listann sem má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert