Stigahæstur og með langflestar stoðsendingar

Elvar Már Friðriksson átti stórleik fyrir Borås.
Elvar Már Friðriksson átti stórleik fyrir Borås. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfubolta, átti magnaðan leik fyrir Borås í 99:81-sigri á Jämtland í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. 

Bakvörðurinn gerði sér lítið fyrir og skoraði 25 stig, gaf 15 stoðsendingar og tók 3 fráköst á 32 mínútum. Var hann stigahæstur allra á vellinum og með langflestar stoðsendingar. 

Fyrir leikinn var Elvar með 16,4 stig, 7,1 stoðsendingu og 3,1 frákast að meðaltali í leik í deildinni og hefur hann spilað vel síðan hann gekk í raðir Borås frá Njarðvík fyrir leiktíðina. 

Borås er í þriðja sæti deildarinnar með 22 stig, eins og Köping sem er í öðru sæti. Eru þau tveimur stigum á eftir Luleå sem er í toppsætinu, en Elvar og félagar eiga leik til góða á toppliðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert