Með tvennu í sigri í toppslag

Elvar Már Friðriksson er að spila vel í Svíþjóð.
Elvar Már Friðriksson er að spila vel í Svíþjóð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borås vann sterkan 98:88-sigur á Luleå í toppslag í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Elvar Már Friðriksson lék enn og aftur vel með Borås.

Íslenski leikstjórnandinn hefur vaxið síðan hann gekk í raðir Borås frá Njarðvík fyrir tímabilið en hann skoraði 19 stig í kvöld, gaf 11 stoðsendingar og tók eitt frákast. 

Elvar hefur skilað tvennu í fjórum af síðustu sjö leikjum, en hann skoraði 25 stig og tók 15 fráköst gegn Jämtland í síðustu umferð. Alls er hann með 17 stig, 3 fráköst og tæpar 8 stoðsendingar í leik á tímabilinu. 

Borås er í toppsæti deildarinnar með 24 stig eftir 15 leiki. Luleå er einnig með 24 stig en hefur leikið einum leik meira. Bandaríkjamaðurinn Brandon Rozzell, sem lék með Stjörnunni á síðustu leiktíð, skoraði 19 stig fyrir Luleå í kvöld og var stigahæstur í sínu liði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert