Tölur sem eru lyginni líkastar

Wilt Chamberlain að loknum 100 stiga leiknum.
Wilt Chamberlain að loknum 100 stiga leiknum. nba.com

Í körfuboltaíþróttinni, þar sem vel er haldið utan um tölur úr ýmsum þáttum leiksins, er Wilt Chamberlain handhafi ýmissa meta í NBA-deildinni bandarísku. Íþróttaunnendur reka upp stór augu þegar þeir sjá tölur frá ferli miðherjans. Þar er margt með nokkrum ólíkindum. Til að mynda skoraði hann 100 stig í leik í NBA og gerði það mörgum árum áður en lið fóru að skora 100 stig að meðaltali.

Wilt Chamberlain er þekktastur fyrir einstaklingsafrek sín en hann varð þó NBA-meistari með tveimur liðum. Þegar hann beitti sér fyrir liðsheildina þá gaf það góða raun eins og sást glögglega árið 1967 þegar hann varð meistari með Philadelphia 76ers.

Chamberlain hafði gengið til liðs við Philadelphia árið 1964 og lét strax til sín taka. Á fyrsta tímabili skoraði hann til að mynda 35 stig að meðaltali og tók 23 fráköst að jafnaði. Liðinu tókst hins vegar ekki að verða meistari fyrr en árið 1967.

Leikstílnum breytt

Þá kom þjálfarinn Alex Hannum með annað viðhorf inn í búningsklefann. Hann var óhræddur við að breyta leikstíl og hugsunarhætti leikmanna og var stórstjarnan Chamberlain þar engin undantekning. Raunar tók Hannum Chamberlain sérstaklega fyrir og sýndi hver réði ferðinni. Hannum mun hafa verið svo gagnrýninn á leikstíl Chamberlain að þeim lenti saman á liðsfundi. Með þessu öðlaðist hann þó virðingu Chamberlains þegar miðherjanum var runninn reiðin. 

Wilt Chamberlain í búningi Philadelphia.
Wilt Chamberlain í búningi Philadelphia. Reuters

Hannum fékk Chamberlain til að einbeita sér meira að vörninni og skjóta minna í sókninni þegar keppnistímablið 1966-67 gekk í garð. Liðið var skipað snjöllum leikmönnum og því voru ýmis vopn í vopnabúri liðsins. Chamberlain gat fengið þá hjálp sem þurfti í sókninni til að liðið gæti orðið meistari.

Fyrir vikið var miðherjinn Chamberlain með 8 stoðsendingar þegar uppi var staðið tímabilið 1966-67. Bætti þeim ofan á 24 stig að meðaltali og 24 fráköst að meðaltali. Stigaskorið var það lægsta á ferli Chamberlain í NBA fram að þessu þótt ótrúlegt megi virðast. Leikmenn eins og Hal Greer og Billy Cunningham fengu hins vegar úr meiru að moða en áður og það skilaði liðinu titlinum en liðið vann 68 leiki og tapaði aðeins 13.

Fæddur í gömlu höfuðborginni

Chamberlain var heimamaður því hann fæddist í Philadelphiu hinn 21. ágúst árið 1936. Eftir menntaskólagönguna fór hann til Kansas og lék þar á háskólaárunum en í því ríki er körfuboltahefðin rík. Skólaliðinu þar hafði verið komið á fót af sjálfum James Naismith sem frægastur er fyrir að hafa samið reglurnar fyrir íþróttina. Að skólagöngu lokinni lék Chamberlain fyrst með hinu kunna sýningarliði Harlem Globetrotters árið 1958. 

Chamberlain í búningi hins óvenjulega en heimsfræga liðs, Harlem Globtrotters.
Chamberlain í búningi hins óvenjulega en heimsfræga liðs, Harlem Globtrotters. Harlem Globtrotters

Nú kunna lesendur að spyrja sig hvers vegna svo snjall leikmaður skuli hafa farið þá leið. Skýringin kann að vera sú að á þessum árum gerðu svartir sér ekki endilega vonir um að komast að hjá atvinnumannaliðum. Kynþáttafordómar höfðu áhrif á íþróttirnar og bestu háskólaliðin tefldu til dæmis ekki fram mörgum svörtum leikmönnum lengi vel. Ekki fyrr en Texas Western gerði það um miðjan sjöunda áratuginn eins og fjallað er um í ágætri kvikmynd: Glory Road.

Chamberlain fékk þó tækifæri árið 1959 hjá Philadelphia í NBA.

Chamberlain átti feril í NBA sem er á margan hátt einstakur. Þótt frægastur sé fyrir 100 stiga leikinn árið 1962 gegn New York Knicks. Hér má auðvitað hnykkja á því að 3-stiga línan kom til sögunnar löngu eftir að Chamberlain hætti að spila.

Chamberlain gekk síðar til LA Lakers eða árið 1968 og lék þar síðustu fimm ár ferilsins. Myndaði þar hörkulið ásamt kunnum köppum eins og Jerry West og Elgin Baylor. Þeir urðu meistarar árið 1972 en þurftu nokkrum sinnum að játa sig sigraða gegn Boston Celtics. Þá varð líklega til fyrir alvöru hinn frægi ríkur á milli Lakers og Celtics.

48,5 mínútur að meðaltali

Eins og áður segir eru tölurnar frá ferli Chamberlain lygilegar. Á þrettán ára ferli í NBA skoraði hann 31.419 stig eða 30 að meðaltali í leik. Sem stendur er hann í 7. sæti þeirra sem skorað hafa flest stig í deildinni. Fráköstin eru 23 að meðaltali og stoðsendingarnar 4,4. Ekki var farið að telja varin skot á þessum árum en sú tala hefði verið fróðleg því Chamberlain hafði augljóslega mikla yfirburði nærri körfunni. 

 Kappinn var 216 cm á hæð en virðist hafa verið mjög vel á sig kominn líkamlega því hann fékk litla hvíld í leikjum. Sú staðreynd er nánast yfirgengileg að tímabilið 1961-62 lék hann að meðaltali 48,5 mínútur yfir heilt tímabil. Var sem sagt nánast aldrei tekinn út af og lék auk þess í nokkrum framlengingum sem koma meðaltalinu yfir 48 mínúturnar.

Wilt Chamberlain lést hinn 12. október árið 1999 eða aðeins 63 ára gamall. Hjartveiki dró hann til dauða en árið 1999 hafði heilsu hans hrakað verulega. Hjartatruflanir gerðu fyrst vart við sig árið 1992 hjá kappanum. Hans verður lengi minnst í NBA-deildinni en fjögur lið í Bandaríkjunum hafa tekið treyju númer 13 úr umferð og hengt upp honum til heiðurs. Eru það Kansas-háskólinn, Golden State Warriors, Philadelphia 76ers og Los Angeles Lakers.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 30. mars 2020. 

Wilt Chamberlain var illviðráðanlegur nærri körfunni. Hér treður hann í …
Wilt Chamberlain var illviðráðanlegur nærri körfunni. Hér treður hann í leik með Lakers. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert