Houston lætur Westbrook fara

Russell Westbrook verður í höfuðborginni Washington á næsta tímabili.
Russell Westbrook verður í höfuðborginni Washington á næsta tímabili. AFP

Einn af atkvæðamestu mönnum í NBA-deildinni í körfuknattleik er að skipta um félag en Russell Westbrook mun yfirgefa Houston Rockets og heldur til höfuðborgarinnar. 

Nokkuð hefur verið rætt og ritað vestan hafs um meinta óánægju hjá Westbrook og James Harden í herbúðum Houston Rockets. Óyndi virðist hafa gripið þá félaga sem báðir teljast á meðal bestu leikmanna deildarinnar. Nú er alla vega annar þeirra á förum. 

Westbrook fer til Washington Wizards en hjá Wizards virðast menn taka nokkra áhættu ef horft er til framtíðar. Félagið lætur Houston hafa valrétti í nýliðavalinu nokkur ár fram í tímann ef marka má fréttir frá Bandaríkjunum auk þess sem Houston fær til sín Grant Wall sem verið hefur lykilmaður hjá Washington Wizards í mörg ár. 

„Við gátum hreinlega ekki sleppt því tækifæri að fá leikmann eins og Russell ef horft er til bæði skammtíma og langtíma áhrifa sem slíkur leikmaður getur haft á liðið. Að því sögðu var ofboðslega erfitt að láta John fara sem er einn besti leikmaður í sögu félagsins,“ segir Tommy Sheppard, framkvæmdastjóri Washington Wizards meðal annars í tilkynningu frá félaginu. 

Hvað launamál varðar munu skiptin vera fremur einföld aðgerð því þeir virðast hafa átt inni svipaðar upphæðir. Westbrook er 32 ára og Wall er 30 ára. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert