Grindvíkingar fá Bandaríkjamann

Eistinn Joonas Järveläinen er fyrir í leikmannahópi Grindvíkinga.
Eistinn Joonas Järveläinen er fyrir í leikmannahópi Grindvíkinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Körfuknattleikslið karla hjá Grindavík hefur fengið liðsauka frá Bandaríkjunum en Kazembe Abif hefur samið við Grindvíkinga um að leika með þeim út tímabilið.

Abif er 28 ára gamall framherji, tveir metrar á hæð og er á heimasíðu Grindavíkur sagður kraftmikill en kvikur leikmaður sem ætti að styrkja liðið fyrir átökin sem eru framundan.

Abif lék síðast með Helsinki Seagulls í finnsku úrvalsdeildinni og varð bikarmeistari með liðinu en hann hefur einnig leikið með Kauhajoen Karhu í Finnlandi, Saint John Riptide í Kanada, Næstved í Danmörku og Vechta í Þýskalandi.

Nýi maðurinn er væntanlegur til Grindavíkur á morgun en Grindvíkingar spila næst á mánudaginn þegar þeir fá Val í heimsókn. Þeir eru sem stendur í áttunda sæti Dominos-deildar karla með 10 stig úr 10 leikjum en eru aðeins tveimur stigum frá fjórða sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert