Stórleikur ungstirnisins dugði ekki í New York

Zion Williamson skoraði 34 stig en það dugði ekki til.
Zion Williamson skoraði 34 stig en það dugði ekki til. AFP

Zion Williamson átti stórleik fyrir New Orleans Pelicans þegar liðið heimsótti New York Knicks í bandarísku NBA-deildinni í körfuknattleik í dag.

Williamson, sem er einungis tvítugur, skoraði 34 stig og tók níu fráköst, en leiknum lauk með 122:112-sigri New York eftir framlengdan leik.

Julius Randle var stigahæstur í liði New York með 33 stig og tíu stoðsendingar en New York er í sjötta sæti Austurdeildarinnar með 31 stig á meðan New Orleans er í ellefta sæti Vesturdeildarinnar.

Þá skoraði Trae Young 34 stig og tók ellefu fráköst fyrir Atlanta Hawks þegar liðið fékk Indiana Pacers í heimsókn en leiknum lauk með 129:117-sigri Atlanta Hawks.

Atlanta er með 31 sigur í fimmta sæti Austurdeildarinnar en Indiana Pacers er í níunda sæti Austurdeildarinnar með 26 sigra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert