Körfuboltinn af stað á ný

Iva Georgieva og samherjar í Breiðabliki taka á móti Fjölni …
Iva Georgieva og samherjar í Breiðabliki taka á móti Fjölni í kvöld og Skallagrímur fær Keflavík í heimsókn. mbl.is/Árni Sæberg

Keppni á Íslandsmótinu í körfuknattleik hefst á ný í kvöld eftir mánaðar hlé. Heil umferð verður leikin í úrvalsdeild kvenna, Dominosdeildinni, en þar höfðu verið leiknar fimmtán umferðir af 21 þegar keppnin var stöðvuð seint í marsmánuði.

Toppbaráttan er hnífjöfn þar sem Valur og Keflavík eru með 24 stig á toppnum, Haukar eru með 22 stig og Fjölnir 20 og allt bendir til þess að þessi fjögur lið leiki til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í vor.

Þau leika öll við lið úr neðri hlutanum í kvöld þar sem helst má búast við að Skallagrímur gæti staðið í Keflvíkingum. Liðin mættust líka í síðustu umferðinni fyrir hlé og þá vann Keflavík öruggan sigur, 74:51.

Snæfell og KR heyja einvígi um áframhaldandi sæti í deildinni en þau eru langneðst í deildinni með fjögur stig hvort. Skallagrímur með 12 stig og Breiðablik með 10 sigla hins vegar lygnan sjó til vors miðað við stöðuna í dag.

Breiðablik mætir Fjölni í Smáranum, Snæfell mætir Haukum í Stykkishólmi og Skallagrímur mætir Keflavík í Borgarnesi kl. 19.15 en leikur Vals og KR hefst á Hlíðarenda klukkan 20.15.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert