Stjörnur Clippers sáu um Utah

Rudy Gobert og Kawhi Leonard í baráttunni í nótt.
Rudy Gobert og Kawhi Leonard í baráttunni í nótt. AFP

Donovan Mitchell haldið frá vellinum í lokaleikhlutanum 

Það verður annasamt í úrslitakeppni NBA deildarinnar í kvöld og nótt. Þrír leikir fara fram og munu þeir skýra stöðuna í átta-liða úrslitunum.  

Ég var hér í Staples Center á þriðja leik Los Angeles Clippers í gærkvöldi gegn besta liði Vesturdeildarinnar, Utah Jazz, en Jazz vann fyrstu tvo leikina í Salt Lake City í þessari rimmu. Þetta var þriðji leikur Utah sem ég hef séð á þessu keppnistímabili hér í Staples Center og átti ég von á jöfnum leik, þar sem úrslitin í síðasta leik þessara liða voru ekki ráðin fyrr en á síðustu sekúndunum.

Eftir erfiða byrjun tóku Clippers sig til í andlitinu og voru þetta með 10-17 stiga forystu allan leikinn. Maður átti ávallt von á því að Utah myndi jafna leikinn – svo heilsteyptur er leikur liðsins. Það voru hins vegar stjörnuleikmennirnir Kawhi Leonard og Paul Geroge – sá síðarnefndi fór loksins í gang fyrir Clippers í þessari úrslitakeppn – sem voru lykillinn í að stöðva hverja áras Jazz á forystuna. 

Kawhi Leonard var besti leikmaðurinn á vellinum með 34 stig og tólf fráköst, og Paul George var með 31 stig í stórsigri Clippers, 132:106. Þetta var fyrsti leikur George síðan í seinnipart apríl þar sem hann náði loks að brjóta 30 stiga múrinn. Þessir kappar verða að halda áfram að skora svo grimmt ef Clippers ætla sér sigur í þessari leikseríu. 

Staðan í einvíginu er því nú 2:1 fyrir Jazz.

Annars var heimaliðið mjög gott í þessum leik og ef þeir ná að vinna fjórða leikinn á morgun gæti þetta orðið hökurimma.

Í miðjum síðasta leikhlutanum yfirgaf Donovan Mitchell leikvöllinn – haltrandi til búningsherberjanna. Hann sneri þó hins vegar fljótlega aftur, en þjálfari Jazz, Quin Snyder, hélt honum á varamannabekknum það sem eftir lifði leiksins, enda sá hann að það var ekkert sem lið hans gat gert til að vinna upp 15 stig á skömmum tíma. „Hann verður fínn í næsta leik. Ég hefði geta sett hann aftur inná í lokin í kvöld, en þeir náðu að auka á forystuna þegar hann fór af velli svo það var engin ástæða,” sagði Snyder í leikslok. 

Mitchell átti í ökklameiðslum í endann á deildarkeppninni og hann víst lenti á fæti annars leikmanns í lokaleikhlutanum, sem ökklinn greinilega hafði ekki gaman af.

Það er eins gott að Mitchell nái sér því Clippers ætlar sér stóra hluti í þessari rimmu. Jazz bindur hins vegar von við að gamli riffillinn Mike Conley nái að snúa til leiks hið fyrsta eftir tognun á hnébótarsin, en Utah saknar hans nokkuð. Hann er leikmaður sem bindur saman sóknarleik Jazz. 

Þetta er allavega orðin alvöru rimma eftir sigur Clippers.

Sólin of heit

Phoenix Suns virðist nú sigla lygnan sjó inn í hinni úrslitarimmu Vesturdeildarinnar gegn Denver Nuggets. Suns hefur náð 3:0 forystu í einvíginu eftir sigur á föstudagskvöld, 116:102, í Klettafjöllum Colarado.

Skemmst er frá því að segja að eftir að miðherjanum Nikola Jokic hjá Denver var afhent styttan fyrir að vera kosinn leikmaður ársins í deildinni rétt fyrir leik, tóku gestirnir fljótlega forystu sem aldrei var í hættu það sem eftir lifði leiksins.

Ljóst er að Denver mun ekki ná sér á strik hér. Án leikstjórnandans Jamal Murray (á nú hnémeiðslum) hefur leikur liðsins riðlast og það virðist sem að enginn – fyrir utan Jokic – hafi mikið fram að færa í stigaskorunni. Phoenix ætti því að geta klárað dæmið í fjórða leik liðanna í kvöld, enda unnið alla þrjá leikina með minnsta kosti fjórtán sigum. 

Nets og Bucks snúa við tímanum

Milwaukee Bucks náðu loks að vinna gegn Brooklyn Nets á föstudag á sínum heimavelli, 86:83, í leik sem líktist því sem við áttum að venjast í deildinni fyrir aldarfjórðungi síðan. Mikið strögl í skorun. Sá sigur fyllti mig hinsvegar ekki mikilla væntinga fyrir Bucks. Ég býst fastlega við því að Brooklyn vinni fjórða leik liðanna í kvöld og klári svo dæmið seinna í vikunni í New York.

James Harden hjá Nets er smám saman að ná sér af tognun í hnébótarsin, en mun ekki leika í dag. 

Í hinni rimmunni austan megin virðist Philadelphia 76ers vera að ná yfirhöndinni gegn Atlanta Hawks eftir að hafa náð 2:1 forystu í einvígi þessara liða. Leikmenn Sixers náðu loks að hemja skorunarmaskínuna Trae Young í þriðja leiknum og að venju er það nú hlutverk þjálfara Atlanta að finna svar við því. 

Hér getur annars allt gerst, en lykilleikurinn verður á morgun í Atlanta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert